Það búa litlir dvergar - tónleikar fyrir börn

,,Það búa litlir dvergar” er yfirskrift tónleika sem haldnir verða í Bergi menningarhúsi laugardaginn 5. maí kl. 14:00. Það eru þær Sigrún Magna, Helena Guðlaug og Eyrún sem standa fyrir tónleikunum. 

Á tónleikunum verður flutt gömul tónlist sem fengið hefur nýjan búning í formi vinsælla sönglaga á íslensku. Lögin verða flutt bæði í upprunalegri mynd en einnig fá börnin að taka þátt í að syngja lögin í þeirri mynd sem þau þekkja hana. Ekki vita allir að lagið ,,Það búa litlir dvergar“ er úr óperunni Hans og Grétu eftir Humperdinck. ,,ABCD“ er franskt þjóðlag sem Mozart gerði frægt, stefið í Júróvisjon er samið af frönsku tónskáldi, Marc-Anthoine Charpentier á sautjándu öld og kemur úr stærra verki sem heitir Te Deum og svona mætti lengi telja. Í kringum lögin verða fluttir stuttir og einfaldir leikþættir sem henta hverju lagi fyrir sig. Því ættu tónleikarnir að verða með líflegasta móti og henta leikskóla- og grunnskólabörnum ásamt fullorðnum tónelskendum.

Tónleikarnir verða um það bil 40 mínútna langir.

Fritt inn.

Athugasemdir