Í dag, kl. 17:00, opnar í Bergi menningarhúsi sýning á textílverkum Ragnheiðar B. Þórsdóttur.
Ragnheiður er fædd á Sauðarkróki en hefur verið búsett á Akureyri síðastliðin 29 ár. Hún stundaði nám við MH, MHÍ, John F. Kennedy University, KHÍ og HA.
Menningararfur okkar Íslendinga, í myndlist og textíllist, er Ragnheiði hugleikinn og í ofnum textílverkum sínum nýtir hún sér gjarnan þennan auð sem eigum hér á landi en er samt svo ósýnilegur. Undanfarin ár hefur hún meðal annars verið að vinna að verkum sem ofin eru með einni elstu vefnaðartækni sem notuð var hér á landi, röggvarfeldsaðferðinni og er þeirri vinnu hvergi lokið. Einnig hefur hún verið að vinna verk með tækni íslenska glitsins sem er sprottin upp úr gömlu söðuláklæðunum, unnið verk út frá gömlum dúkamunstrum og ofið myndvefnað.
Ragnheiður hefur lengi fengist við kennslu samhliða því að starfa við myndlist og hefur verið kennari við Verkmenntaskólann á Akureyri í 26 ár.
Ragnheiður hefur tekið þátt í samsýningum hérlendis og erlendis um árabil. Hún rekur vinnustofuna Stóllinn í Kaupvangsstræti 23 og var bæjarlistamaður á Akureyri 2014-2015.
Goðabraut | 620 Dalvík | Sími: 460-4930 | netfang: berg@dalvikurbyggd.is
Athugasemdir