Nýtt nafn á menningarhús Dalvíkurbyggðar

Nú er lokið samkeppni um nafn á menningarhús Dalvíkurbyggðar en húsið er gjöf Sparisjóðs Svarfdæla til íbúa Dalvíkurbyggðar. Stefnt er að því að opna húsið formlega 5.ágúst næstkomandi. Þátttaka í samkeppninni var með eindæmum góð en alls bárust 135 tillögur að nafni á húsið í 63 umslögum. Dómnefndin hefur nú lokið störfum og valið nafn á húsið úr innsendum tillögum. Það varð einróma niðurstaða nefndarinnar að velja nafnið: 

                                                                        Berg

Alls bárust tvær tillögur að nafninu Berg en þær eiga Júlíus Jón Daníelsson Reykjavík og Dóróþea Reimarsdóttir Dalvík en auk þess að eiga heiðurinn að nafni hússins fá þau hvort um sig miða fyrir tvo á alla auglýsta viðburði í húsinu í eitt ár frá opnun þess.

Rökstuðningur dómnefndar:
Samkvæmt Íslensku orðsifjabókinni hefur orðið berg þessa skýringu: Klöpp, klettur eða hamrafjall og vísar nafnið þannig beint til útlit hússin sjálfs en það er klætt að utan með steinklæðningu og getur litið út eins og klettur eða berg. Eins er markmiðið með rekstri hússins að standa vörð um menningu og menningarstarfsemi í sveitarfélaginu á kraftmikinn hátt – eins og klettur.

Dalvíkurbyggð er á Tröllaskaganum og því einkennist umhverfið af fjöllum og því má segja að húsið hafi líka skírskotun til síns nánasta umhverfis en hér erum við umvafin bergi.

Þjóðtrú okkar Íslendinga segir líka að í berginu búi ýmislegt spennandi, heillandi og óvænt og gefur það nafninu ennþá meira gildi.

Orðið berg er notað í ýmsum myndum og má þar nefna „ að vera af sama bergi brotinn“ sem þýðir að hafa sama uppruna og vísar í okkar tilfelli til þess að þegar allt kemur til alls þá erum við öll af sama uppruna og að menning og menningarstarfsemi á að vera fordómalaus gagnvart fólki, listgreinum og svo framv. Í húsinu eiga allir sinn sess og sitt pláss.

Orðið sjálft býður einnig upp á skemmtilega orðaleiki og orðnotkun svo sem berg-mál, berg-numinn, berg-risinn og svo framvegis.

Samantekið:
Nafnið Berg er stutt og þjált í munni, hefur mikla skírskotun í húsið sjálft og umhverfi þess, hefur kröftuga merkingu jafnframt því að vísa til jafns aðgengis allra að húsinu og býður upp á skemmtilega orðaleiki og orðnotkun.

Önnur nöfn sem bárust í keppnina voru þessi, alls 135 tillögur:

Böggver, Sogn, Höfn, Víkin, Svarfdæla, Svörfuður, Smárinn, Grund, Mörk, Berg, Stóllinn, Stjarnan, Upsir, Höfði, Brimnes, Hamar, Frón, Dröfn, Smárinn, Dalahöllin, Fræið, Brunnur, Vitinn, Stóllinn, Setrið, Staðurinn, Fjörður, Brekka, Smárinn, Stjarnan, Lundur, Dalhús, Laufið, Spari, Torgið, Stafn, Óskasteinn, Gimli, Böggver, Smárinn, Upsir, Böggver, Hnjúkur, Svarfdælski Smárinn, Smáralundur, Fannborg, Höfði, Miklibær, Húsið mikla, Miklahús, Ásgarður, Grund, Risinn, Stóllinn, Naust, Aldan, Báran, Lágin, Dalhús, Laufið, Áttan, Víkin, Böggver, Sogn, Frón, Víkurbær, Holt, Höll, Melar, Höfði, Vellir, Vegamót, Björk, Dröfn, Upsir, Lágin, Dalakofinn, Dalborg, Smárinn, Brimnes, Brim, Brimnes, Sogn, Fjölhúsið, Sparihúsið, Fjölnotahúsið, Brimnes, Smárinn, Eldjárn, Klettur, Dropinn, Krónan, Áning, Setrið, Torgið, Dalsmynni, Hamar, Svörfuður, Svarfaðarsetur, Böggver, Upsasetur, Selið, Hrólfsbúð, Frón, Höfn, Böggvisbúð, Urðarbrunnur, Böggver, Sogn, Höfn, Dalurinn, Menningarhúsið í Dalvíkurbyggð, Víkin, Upsin, Svarfdælahof, Svarfdælakot, Svarfdæla, Menningarhúsið Svörfuður, Svörfuður, Kreppa, Svörfuður, Húsið, Miðbær, Dalvíkurbúð, Smárinn, Kastalinn, Röst, Naust, Stafn, Múli, Skarð, Búð, Dalbúð, Einhamar, Sel, Dalsel, Tindur, Marbakki, Mörk, Steinn, Unnarsteinn, Grund, Ljóðhús, Skeið, Garður, Sólgarður, Sólgarðar, Hóll, Hlynsalir, Oddi, Hugbót, Berg, Versalir, Staður, Þórshamar, Sogn,

Athugasemdir