Hanna Dóra Sturludóttir syngur á Klassík í Bergi

Hanna Dóra Sturludóttir syngur á Klassík í Bergi

Hanna Dóra Sturludóttir syngur á lokatónleikum Klassík í Bergi 2013-2014. Tónleikarnir fara fram næstkomandi laugardag, 8. mars, kl. 16:00. Með henni leikur Anna Guðný Guðmundsdóttir á píanó. Hanna Dóra syngur tvo ljóðaflokka; Sígaunaljóðin eftir Antonin Dvorák og Sjö vinsæl alþýðulög eftir Manuel de Falla. Auk þess syngur hún nokkur ljóð eftir Jónas Hallgrímsson og aríurnar úr Carmen á íslensku en Hanna Dóra söng einmitt hlutverk Carmenar í uppfærslu Íslensku Óperunnar árið 2013.

Miðar á einstaka tónleika verða seldir við innganginn og kosta 3.500, 13-18 ára borga 1.000 og frítt er fyrir 12 ára og yngri.

Hanna Dóra Sturludóttir stundaði söngnám hjá Kristni Sigmundssyni og Snæbjörgu Snæbjarnar við Söngskólann í Reykjavík áður en hún hélt til framhaldsnáms í Listaháskólanum í Berlín. Kennarar hennar þar voru m.a. Dietrich Fischer-Dieskau og Aribert Reimann og útskrifaðist hún þaðan með viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur.

Hanna Dóra hefur sungið við mörg helstu óperuhús Þýskalands, m.a. Bonn, Weimar, Kassel, Komische Oper og Ríkisóperu Berlinar. Á meðal þeirra uþb. 40 hlutverka sem hún hefur túlkað á ferlinum eru Greifynjan (Brúðkaup Figarós), Cio Cio San (Madame Butterfly), Marie (Wozzek), Miss Jessel (The Turn of the Screw) og titilhlutverkið í óperunni Ariadne auf Naxos sem hún söng í Íslensku óperunni 2007.
Haustið 2010 söng Hanna Dóra „Miss Donnithorne´s Maggot“ eftir Peter Maxwell­Davies í Ríkisóperunni í Berlín og fékk feikilega góða umfjöllun gagnrýnenda.

Hanna Dóra hefur komið fram á tónleikum um allt þýskaland og víða í Evrópu og tónleikahald hefur meðal annars borið hana til Qatar og Egyptalands.

Undanfarin ár hefur Hanna Dóra tekið þátt í fjölmörgum uppfærslum óperusmiðjunnar Novoflot í Berlín, sem sérhæfir sig í frumflutningi á nýrri óperutónlist og flutt með þeim verk m.a. í Varsjá og Lúxemburg. Sumarið 2012 var hún í aðalhlutverki í verkinu Wagnerin, sem hópurinn setti upp í samstarfi við Ríkisóperuna í München.

Á Íslandi hefur hún sungið í uppsetningum Íslensku óperunnar (Töfraflautan 2001, Tökin hert 2005 og titilhlutverk Ariadne auf Naxos 2007) haldið fjölda ljóðatónleika og sungið Vínartónleika með Salónhljómsveit Sigurðar Ingva Snorrasonar.

Hún hefur einnig sungið með Sinfóníuhljómsveit Íslands við mörg tækifæri. Í april 2013 flutti hún með hljómsveitinni Wesendonck ljóðaflokkin eftir Richard Wagner og fékk einstakt lof gagnrýnenda fyrir frammistöðu sína.

Athugasemdir