Fjöldi gesta við opnun Bergs menningarhúss

Fjöldi gesta við opnun Bergs menningarhúss

Berg menningarhús á Dalvík var formlega tekið í notkun síðastliðinn miðvikudag að viðstöddu fjölmenni. Mikið var um dýrðir, ræðhöld og tónlistaratriði voru flutt. Að auki opnuðu í húsinu tvær listsýningar. Sýningin Fram til fortíðar er sýning á vegum byggðasafnsins Hvols en þar taka saman höndum fjórir listamenn og skapa nútímalistmuni en sækja innblástur sinn í gripi af byggðasafninu. Myndlistasýning með verkum úr listaverkasafni Fjallabyggðar var einnig opnuð en um er að ræða tímamótaverk olíumálverksins í íslenskri listasögu 20. aldarinnar.


Húsið er í eigu Sparisjóðs Svarfdæla en við opnunina tók Svanfríður Jónasdóttir, bæjastjóri, við húsinu fyrir hönd íbúanna sem hafa þar með fengið það til afnota en Dalvíkurbyggð og Menningarfélagið Berg ses munu sjá um rekstur þess. Framkvæmdastjóri Bergs er Margrét Víkingsdóttir.


Dagskrá opnunardagsins lauk síðan með tónleikum þar sem fram kom fjöldi listamanna úr sveitarfélaginu. Þeir sem fram komu voru Kór Dalvíkurkirkju, Eyþór Ingi Gunnlaugsson, Samkór Svarfdæla, Friðrik Ómar Hjörleifsson, Salka kvennakór, Matthías Matthíasson og Karlakór Dalvíkur. Óhætt er að segja að tónleikarnir hafi verið vel sóttir því yfir 300 manns komu til að hlýða á þessa frábæru listamenn.


Í gær, fimmtudag, hélt dagskráin svo áfram með upplestri í hádeginu og leiðsögn um myndlistasýninguna. Tvennir tónleikar voru svo í gærkveldi. Kammerkór Norðurlands reið á vaðið og hélt tónleika kl. 20:00 og kl. 22:30 voru síðan tónleikar með Eyþóri Inga Gunnlaugssyni.


Í dag föstudag verða síðan tónleikar í hádeginu með Kristjönu Arngrímsdóttur og Erni Kristjánssyni og kl. 14:00 verður farin leiðsögn um myndlistarsýninguna. Frítt er inn á báða þessa viðburði. Einnig verður hægt að fá sér léttan hádegisverð, kaffi og kökur í dag en það er veitingastaðurinn Við höfina sem sér um veitingarnar.


Um helgina verður húsið svo opið sem hér segir:
Laugardagur 8. ágúst kl. 13:00-15:00. Hægt verður að koma og skoða húsið.
Sunnudagur 9. ágúst kl. 13:00-16:00. Hægt verður að koma og skoða húsið auk þess sem leiðsögn verður farin um myndlistasýningu kl. 14:00


Athugasemdir