Bréf til bjargar lífi, bréfamaraþon.

Bréf til bjargar lífi, bréfamaraþon.

Nú stendur yfir í Bergi bréfamaraþon, bréf til bjargar lífi og hvetjum við alla til að koma við, skrifa undir kort og leggja þar með sitt af mörkum við að bjarga lífi.

Í rúm 50 ár hefur Amnesty International barist gegn mannréttindabrotum með pennann að vopni og á hverju ári er samviskufangi leystur úr haldi, fangar hljóta mannúðlegri meðferð, þolandi pyndinga sér réttlætinu fullnægt, fangi á dauðadeild er náðaður eða ómannúðlegri löggjöf er breytt. Á hverju ári eiga sér stað raunverulegar breytingar á lífi þolenda mannréttindabrota vegna undirskrifta og aðgerða fjölmargra Íslendinga.

Gott dæmi um raunverulega breytingu á lífi þolanda mannréttindabrots er saga Moses Akatugba, ungs manns frá Nígeríu sem var pyndaður grimmilega og dæmdur til dauða með hengingu aðeins 16 ára gamall fyrir það eitt að stela þremur farsímum. Á síðasta ári þrýstu rúmlega 300.000 manns, í bréfamaraþoni samtakanna, á fylkisstjórann á óseyrum Nígerfljóts að náða Moses og í maí 2015 lét fylkisstjórinn undan. Moses er nú frjáls maður og verður hann gestur Íslandsdeildar Amnesty International dagana 14. til 17. nóvember næstkomandi. Hann lét eftirfarandi orð falla þegar ljóst var að hann yrði náðaður: „Ég er djúpt snortinn. Ég þakka Amnesty International og aðgerðasinnum fyrir stórkostlegan stuðning sem gerði mig að  í þessum aðstæðum. Þið eruð hetjurnar mínar. Án þeirra þúsunda bréfa og undirskrifta sem send voru til stuðnings máli mínu hefði ég mögulega aldrei hlotið frelsi. Þið hafið blásið mér í brjóst löngunina til að gerast aðgerðasinni sjálfur – að berjast fyrir aðra. Viltu ganga til liðs við mig? Viltu berjast fyrir frelsi annarra sem eru ranglega fangelsaðir, með þátttöku í bréfamaraþoni Amnesty í ár?“

Bréfamaraþon Amnesty International er einn stærsti mannréttindaviðburður heims og sönnun þess að í krafti fjöldans er unnt að umturna lífi fólks sem sætir grófum mannréttindabrotum. Á síðasta ári sendu einstaklingar um heim allan rúmar 4 milljónir bréfa, korta, smáskilaboða og tölvupósta í þágu þolenda pyndinga, samviskufanga, fanga á dauðadeild og kvenna og stúlkna sem neyddar eru í hjónabönd.

Íslandsdeild Amnesty International stendur nú fyrir Bréfamaraþoni þrettánda árið í röð en fjöldi bókasafna, einstaklinga út á landi og grunn- og framhaldsskóla taka þátt og leggja sitt af mörkum til berjast fyrir einstaklinga sem sæta grófum mannréttindabrotum. Það kann að vera auðvelt fyrir stjórnvöld að hunsa eitt bréf en þegar milljónir slíkra bréfa berast, eins og á Bréfamaraþoni Amnesty International, er erfitt að líta undan. Bréfin bera árangur. Bréfin bjarga lífi.

Málin eru prentuð á aðgerðakort þar sem finna má upplýsingar um tiltekið mál á íslensku og fyrirfram skrifað bréf til viðkomandi stjórnvalda. Fólk les sér til um málið og skrifar svo nafn sitt undir bréfið til stjórnvalda auk landsins þaðan sem það kemur (Iceland). Málin í ár verða tíu talsins og koma saman í bunka. Hver þátttakandi fær afhentan einn bunka til að skrifa undir. Fólk þarf auðvitað ekki að skrifa undir öll málin frekar en það vill en við hvetjum að sjálfsögðu til þess.

Kortin eru rifgötuð og við höldum eftir þeim hluta kortanna sem búið er að skrifa undir. Þátttakendur geta tekið upplýsingahliðina með sér ef það kýs.

Bréfamaraþonið fer fram dagana 2. – 16. desember.

Athugasemdir