Barnadraumar í Bergi

Spjaldasýning Skuggsjár á draumum barna í Eyþingi opnar í Bergi menningarhúsi á Dalvík laugardaginn 13. febrúar kl. 14:00. Sýningin er byggð á barnadraumakönnun Skuggsjár, sem fram fór á árunum 2007 til 2009 á Akureyri, í Grímsey og á Þórshöfn. Ennfremur verða til sýnis bækur og
kvikmyndir, sem koma inn á svefn og drauma barna.


Draumasetrið Skuggsjá hefur starfað á Akureyri frá árinu 2003 og safnar og rannsakar drauma Íslendinga fyrr og nú, (sjá www.skuggsja.is). Talað var við
börn og ungmenni á aldrinum 3ja-18 ára. Fjölmargir draumar söfnuðust, sem birta öll helstu einkenni og inntak, sem komið hafa fram í erlendum könnunum.
Ljóst er að íslensk börn hafa áhuga á draumum og segja frá þeim og myndbirta á lifandi hátt og þekkja til allra helstu flokka drauma.


Einn hluti barnadraumakönnunar Skuggsjár hefur verið heimildakönnun á lífi og starfi draumspakra barna og ungmenna í Eyþingi á fyrri tíð. Sumir þessir
einstaklingar urðu snemma þjóðþekktir sökum draumgáfu sinnar. Einn þeirra var Jóhannes Jónsson, (1866-1944), svokallaður Drauma-Jói,
sem alinn var upp á Sauðanesi á Langanesi. Jói varð þekktur um land allt fyrir svefnsögur sínar og draumtal – talaði svör við spurningum upp úr svefni – og
gat t.d. dreymt hvar týnda hluti væri að finna. Á sýningunni er að finna fróðleik um ævi Jóa og frásagnir af fágætri draumskyggni hans.

Allir velkomnir og börn sérstaklega boðin velkomin til að teikna drauma sína.

Sýningin er opin á opnunartíma hússins, nánari upplýsingar á www.dalvik.is/menningarhus

Við minnum einnig á Kaffihúsið okkar góða.

Athugasemdir