Nú er hafið 2. starfsár Árskógarskóla eftir að nýr skóli tveggja skólastiga varð til. Í þessum skóla vinnur frábært starfsfólk, fjölbreyttur hópur fólks sem hefur reynslu af kennslu, af vinnu með börnum, úr fiskvinnslu og landbúnaði, listalífi, atvinnurekstri og þannig mætti lengi telja. Hér vinnur fólk með metnað sem er umhyggjusamt fyrir alla nemendur. Að búa til einn skóla tveggja skólastiga er verkefnið, verkefnið gengur vel vegna þess að starfsfólk er sammála um það markmið en meðvitað um að ákveðin viðmið og gildi eru ólík á leik- og grunnskólastigi, við höfum tekist á um leiðir, við höfum verið ósammála og stundum ósátt, við höfum hins vegar alltaf haft vilja til þess að mætast á miðri leið og finna lausnir okkur öllum og nemendum til góða og það er það sem skiptir máli. Í skólanum er mikill metnaður og fjölmörg verkefni í gangi, það þarf að skipuleggja nám og leik út frá fjölbreyttum hópi nemenda og að stilla upp samkennslu sem hentar breiðum aldri, getu og þroska í öllum námsgreinum og námssviðum, það þarf að skipuleggja samstarf á mörkum skólastiganna, það þarf að skipuleggja þrif og gæslu í skólanum og í félagsheimili, það þarf að skipuleggja ýmsan stuðning við nemendur og samstarf við foreldra og ýmsa aðila sem að nemendum koma, ótal verkefni eru unnin á hverjum degi og í mörg horn að líta. Starfsfólk Árskógarskóla á skilið hrós fyrir frábært faglegt starf, mikinn metnað og jákvæðni, virðingu og umburðarlyndi fyrir ýmsum sjónarhornum, það heyrist alltof sjaldan það sem vel er gert. Að búa til nýjan skóla er langhlaup sem snýst um samvinnu og lausnaleit, umhyggju, virðingu og víðsýni, allt þetta einkennir góðan starfsmannahóp Árskógarskóla.
Kveðja, skólastjóri.
Árskógi, 621 Dalvíkurbyggð Sími: 460 4970 |
Skólinn er opinn frá Skólastjóri: Friðrik Arnarson |
Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda: 460-4973; 460-4970 / arskogarskoli@dalvikurbyggd.is