Skólaþing-jafnrétti

Skólaþing-jafnrétti

Skólaþing Árskógarskóla var haldið fimmtudaginn 17. október þar sem fjallað var um jafnrétti í skólastarfi en jafnrétti er einn af grunnþáttum menntunar og þetta þing því liður í innleiðingu þess grunnþáttar. 

Markmið skólaþings er að nemendur hafi áhrif á skólann á lýðræðislegan hátt og þær ákvarðanir sem eru teknar, enda mikilvægt að raddir nemenda og skoðanir séu virtar. Einn af grunnþáttum menntunar (Læsi, Sjálfbærni, Heilbrigði og velferð, Lýðræði og mannréttindi, Jafnrétti, Sköpun) er einmitt Lýðræði og mannréttindi og skólaþing er haldið í þeim anda.
 
Ákveðið var að skólaþingið í haust yrði helgað jafnrétti í skólastarfi og þar yrði unnið með grunnþáttinn jafnrétti frá sjónarhorni nemenda. Ástæðan fyrir því að skólaþing nú var í anda jafnréttis er sú að Sprotasjóður styrkti fræðslu- og menningarsvið í samstarfi við leik- og grunnskóla Dalvíkurbyggðar til að vinna verkefnið Jafnrétti – setjum gleraugun á nefið. Verkefnið er samvinnuverkefni skólanna og munu þeir vinna afmarkaða þætti þess hver fyrir sig en aðra í sameiningu. Markmið verkefnisins er að vinna markvisst með og að jafnrétti yfir skólaárið 2013-2014 í skólum Dalvíkurbyggðar.
Nemendur unnu mörg verkefni tengd jafnrétti og hreint frábært að sjá hvað þau búa yfir góðum skilningi á því hversu eðlilegt það er að allir séu jafnir, eitthvað sem þarf að rækta alla ævi. Kennarar unnu mjög gott starf í þessari vinnu og saman varð úr gott, jákvætt og uppbyggilegt skólaþing. Næsta þing er í vor og þá langar okkur að fá foreldra til liðs við okkur.
Hér á heimasíðu má skoða glærur sem nemendur unnu og í myndasafni eru myndir af veggspjöldum
Flottir krakkar og kennarar í Árskógarskóla