Í dag 12. desember fóru 5 ára og eldri í skemmtiferð til Akureyrar. Við fórum með Ævari á rútu, byrjuðum á því að skella okkur á skauta í Skautahöllinni sem var afar gaman og allir skemmtu sér vel. Svo fórum við í heimsókn á Slökkvistöð Akureyrar. Okkur var skipt í tvo hópa og við fengum að skoða alla sjúkrabílana, slökkvibílana, slöngubát, prófuðum brunaslöngu, púlsinn var mældur hjá nokkrum og við hreinlega fengum að kynntast öllum tækjum og tólum sem þarna er að finna. Mjög fróðleg heimsókn og hápunkturinn var þegar alvöru sjúkrabílaútkall kom til og tveir sjúkraflutningamenn þutu af stað til aðstoðar. Móttökurnar á slökkvistöðinni voru hreint út sagt frábærar og mikill fróðleikur sem við fengum og allir skemmtu sér vel. Næst fórum við á Bautann og borðuðum þar í góða stund, alveg frábært hvað við eigum stillta og kurteisa nemendur, þau voru sjálfum sér til sóma í alla staði þarna sem og í allri ferðinni. Nú svo röltum við í bæinn, hittum jólaköttinn og fórum í óvænta heimsókn til Palla Páls ljósmyndara en hann þekkjum við síðan í vor er hann myndaði okkur í skólanum. Þá röltum við í Hof, kíktum á Erró sýningu og skoðuðum okkur um. Frábær ferð með frábærum nemendum. Fullt af myndum í myndasafni.
Árskógi, 621 Dalvíkurbyggð Sími: 460 4970 |
Skólinn er opinn frá Skólastjóri: Friðrik Arnarson |
Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda: 460-4973; 460-4970 / arskogarskoli@dalvikurbyggd.is