Nýtt skólaár gengið í garð, jibbí

Nýtt skólaár gengið í garð, jibbí

Gott fólk, nú er kátt í höllinni þar sem nýtt skólaár er gengið í garð, þriðja starfsár Árskógarskóla sem leik- og grunnskóla 2014-2015. Engar breytingar hafa átt sér stað í sumar hvað starfsfólk varðar en lista starfsmanna má skoða á síðunni. Nemendur verða 15 á leikskólastigi og 24 á grunnskólastigi sem er keimlíkt fyrri árum. Kötlukot opnaði í gær þar sem kát börn og kennarar dustuðu sumarfríið af sér og hófu leik og nám.

Aðrir kennarar, skólaliðar og þroskaþjálfi eru mætt til leiks og undirbúa komu grunnskólastigsnemenda en viðtöl með nemendum og foreldrum verða mánudaginn 25. ágúst, viðtalsboðun verður send út næsta mánudag. Innkaupalista grunnskólastigs má finna á síðunni fyrir miðju Grunnskólastig-1.-7.-bekkur . Stundaskrár verða afhentar í viðtölum en koma einnig inn á heimasíðuna undir fyrrnefndum hlekk. Kynningarfundur um starf vetrarins í skólanum verður haldinn í byrjun september þar sem tækifæri gefst til að ræða saman um nám og kennslu og fyrirkomulag á ýmsum þáttum. Þá skipum við í skólaráð og fleira skemmtilegt.

Markmiðið er að gera enn betur en fyrri ár (sem mælst hafa sérlega vel) að nám og kennsla verði með þeim hætti að hver og einn nemandi fái notið sín á eigin forsendum, að foreldrar séu virkir þátttakendur í námi barna sinna í samvinnu við kennara og að starfsfólk njóti góðs aðbúnaðar og sé áfram traustur, samhentur og öflugur hópur.

Við viljum fá foreldra sem oftast í heimsókn og til að taka þátt í starfinu með okkur, okkur langar líka að fá ömmur og afa, frænkur og frænda í skólann, við bjóðum nærsamfélaginu að koma í skólann og miðla af reynslu sinni og kynnast okkur. Við í Árskógarskóla höldum af stað í nýtt skólaár með jákvæðni, metnað, fagmennsku, samvinnu og gleði í farteskinu.

P.s. læt fylgja með hrá drög að merki skólans sem er í vinnslu, teiknað af nemendum skólans. Það verður klárar í haust og munstrað á allt sem viðkemur skólanum okkar.

p.s. aftur...... við höfum nóg pláss fyrir nýja nemendur og fullt af umhyggju, fagmennsku, virðingu og trausti. Árskógarskóli er klárlega valkostur sem er búinn að sanna sig sem góður skóli (leik- og grunnskóli).