Til foreldra/forráðamanna
Menntamálastofnun hefur sett fram ný lesfimiviðmið sem Árskógarskóli mun styðjast við í lestrarþjálfun nemenda á grunnskólastigi.
Ný lesfimiviðmið Menntamálastofnunar
Haustið 2015 hófst hjá Menntamálastofnun vinna við þróun skimunar- og stöðuprófa í lestri sem hlotið hafa heitið Lesferill. Fyrsti hluti þessara prófa er nú tilbúinn til notkunar ásamt lesfimiviðmiðum fyrir 1.-10. bekk grunnskóla. Próf og viðmið fyrir lesskilning og ritun verða fullbúin í árslok 2018.
Hvað er lesfimi?
Lesfimi er í raun samsett færni sem felst í leshraða, lestrarnákvæmni og áherslum og hrynjandi í lestri. Fjölmargar rannsóknir sýna að sterk tengsl eru milli lesfimi og lesskilnings og með því að bæta lesfimi nemenda eflist lesskilningur jafnframt.
Hvað eru lesfimiviðmið?
Lesfimiviðmið eru einskonar vörður sem settar eru þannig fram að þær sýna stígandi í lesfimi frá einum tíma til annars. Þetta eru almenn viðmið um færni nemenda í lesfimi sem gegna því hlutverki að setja upp markmið fyrir nemendur í hverjum árgangi þannig að þeir verði undirbúnir fyrir kröfur á næstu stigum náms. Lesfimi er mæld sem rétt lesin orð á mínútu. Ný lesfimiviðmið Menntamálastofnunar miðast við niðurstöður úr lesfimiprófum Lesferils og því er ekki hægt að nota önnur próf til að meta hvort nemandi hafi náð þessum viðmiðum.
Hér má lesa nánar um lesferil í nýútkomnum bæklingi Menntamálastofnunar.