Heimanám í Árskógarskóla

Heimanám í Árskógarskóla

Gleðilegt nýtt ár!

Umræða um heimanám grunnskólastigs, kosti þess og galla, kemur eðlilega reglulega upp á yfirborðið og hollt og gott að ræða um það. Sumum nemendum hentar vel að vinna ákveðna þætti námsins heima, öðrum ekki. Sum heimili eru á einn eða annan hátt vel eða síður sett til þess að aðstoða við heimanám og jafnvel taka þátt í því. Árskógarskóli hefur mótað sér stefnu um heimanám sem er bundin í skólanámskrá og er þessi:


"Það er stefna skólans að lágmarka heimanám og reyna eftir fremsta megni að gera nemendum kleift að klára vinnu sína á skólatíma. Miðað er við að lestur sé heimanám alla virka daga. Ef heimanám nemenda á grunnskólaaldri er til staðar á einhverjum tímapunkti umfram lestur og tilfallandi verkefni sem hentar vel skóla, nemanda og námi hans, skal það vera hæfilegt og einstaklingsmiðað eins og kostur er. Það er ákvörðun kennarans hverju sinni hvort heimanám sé eða ekki og hvernig það er sett fram. Ef nemandi hefur af einhverjum sökum ekki sinnt námi sínu á skólatíma getur kennari sett honum fyrir að vinna það upp heima ef aðstæður leyfa."

Skólinn veitir sem sagt hverjum og einum kennara ákveðið frelsi og val um heimanám. Ef spurningar vakna um heimanám þá endilega hafið samband við okkur.

Nýárskveðja, Gunnþór Eyfjörð G. skólastjóri