Gegn einelti

Gegn einelti

Laugardaginn 8. nóvember er baráttudagur gegn einelti. Dagurinn er til þess að minna okkur á mikilvægi forvarna gegn einelti og hversu alvarlegt það er þegar einhver verður fyrir einelti. Þolendur og gerendur þurfa aðstoð í öllum tilfellum eineltis og til þess vinnum við meðal annars með Uppbyggingarstefnuna í Árskógarskóla. Nánar um verkefnið Gegn einelti má lesa hér.


Af gefnu tilefni langar mig að minna foreldra á umgjörð skólans um einelti:
Nemendaverndarráð gegnir hlutverki eineltisteymis skólans og í því sitja skólastjórnendur, skólahjúkrunarfræðingur og fulltrúar frá skóla- og félagsþjónustu Dalvíkurbyggðar auk viðkomandi umsjónarkennara/hópstjóra þegar fundað er um eineltismál. Hlutverk teymisins er að fara með eineltismál sem upp koma í þar til gert ferli. Skólastjóri er leiðtogi teymisins og boðar fundi þess.


Kæru foreldrar, ef grunur vaknar um einelti bið ég ykkur að hafa strax samband við umsjónarkennara, hópstjóra eða skólastjórnendur.


Hvað er einelti?
• Einelti er þegar einstaklingur verður endurtekið á ákveðnu tímabili fyrir aðkasti frá einum eða fleiri aðilum.
• Markmið skólans er að halda uppi öflugu forvarnarstarfi og hafa skilvirka áætlun um samræmd viðbrögð við einelti.
• Með því að styrkja samvinnu milli nemenda annars vegar og milli nemenda og starfsfólks hins vegar minnkum við líkurnar á einelti.
• Í okkar skóla koma allir öllum við, því gerum við athugasemdir við óásættanlega hegðun.
• Einelti og annað ofbeldi andlegt og líkamlegt er ekki liðið í Árskógarskóla.


Áætlun er grunur vaknar um einelti er að finna á heimasíðu hér.
Í skólanum ræðum við um einelti og afleiðingar þess og hvað við getum gert til þess að koma í veg fyrir það. Það er mikilvægt að sama umræða sé tekin heima.

Kveðja, skólastjóri