Í dag er 8. nóvember og ár hvert er sá dagur helgaður baráttunni gegn einelti í samfélaginu og er dagurinn nú haldinn í sjötta sinn. Skólar, félags- og frístundamiðstöðvar, vinnustaðir og landsmenn allir eru hvattir til að hugleiða hvernig við getum stuðlað að jákvæðara samfélagi fyrir alla. Hægt er að minna á daginn með táknrænum hætti og beina umræðunni að einelti og afleiðingum þess í samfélaginu.
Vert er að rifja upp að árið 2011 undirrituðu fulltrúar stjórnvalda, sveitarfélaga, félagasamtaka og opinberra stofnana þjóðarsáttmála gegn einelti og lýstu þar með vilja sínum til að leggja þessu málefni lið. Ef þú hefur ekki undirritað þjóðarsáttmálann ertu hvattur til að gera það, en með undirritun skuldbindur þú þig til að leggja þessu þarfa málefni lið og stuðla að jákvæðum samskiptum. Sáttmálinn er á vefsíðu fagráðs eineltismála í grunnskólum gegneinelti.is
Allt of mörgum líður illa vegna eineltis og staðreyndin er sú að einelti getur eyðilagt líf og tekið líf. Einelti er þjóðfélagsmein og það er samfélagsskylda okkar að stuðla að því að uppræta það. Einelti þrífst alls staðar þar sem það er látið afskiptalaust. Ef við verðum vör við einelti, leggjum þá okkar framlag á vogarskálarnar, grípum inn í og gerum okkar besta til að beina málinu í réttan farveg. Eitt mikilvægasta vopnið í baráttunni gegn einelti er að samþykkja ekki þöggun.
Í dag ræddu kennarar við nemendur á báðum skólastigum um einelti, forvarnir gegn því, skoðuðu myndir og veltu fyrir sér hvað hver og einn getur gert til að koma í veg fyrir einelti. Í skólanum er umræða um einelti virk og við hvetjum foreldra til að ræða við börnin um einelti, orsök, afleiðingar og hvað við getum tileinkað okkur til þess að koma í veg fyrir það.
Hér á heimasíðu skólans er að finna skilgreiningu á einelti, eineltisáætlun, aðgerðaráætlun og fleira mikilvægt.
Árskógi, 621 Dalvíkurbyggð Sími: 460 4970 |
Skólinn er opinn frá Skólastjóri: Friðrik Arnarson |
Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda: 460-4973; 460-4970 / arskogarskoli@dalvikurbyggd.is