Sýningin Til gagns og til fegurðar verður opnuð á byggðasafninu Hvoli á Eyfirska safnadaginn þann 3. maí.
Æsa Sigurjónsdóttir listfræðingur hefur gert rannsóknir á útliti og klæðaburði Íslendinga í ljósmyndum frá 1860 til 1960 og eru þær kynntar á sýningunni .
Flestir geta verið sammála um að ljósmyndir geri tímann nánast áþreifanlegan. Ljósmyndir hafa þó ekki einungis heimildargildi um tökutímann, og það sem var, heldur búa þær yfir fagurfræðilegum eiginleikum og ríkulegu táknmáli. Þær móta hugmyndir okkar um hið liðna og sýna afstöðu okkar til tímans og sögunnar, jafnframt því að vera áhrifamikill miðill til ímyndarsköpunar. Tíminn hefur mikil áhrif á það hvernig við horfum á ljósmyndir, upplifum þær og skiljum, þær vekja spurningar um samband Íslendinga við táknheim sinn fyrr og nú. Hvernig er hægt að nota ljósmyndir til að setja saman mynd af fortíðinni og jafnvel nálgast hana á nýjan hátt? Geta myndir hjálpað okkur við að gera söguna sýnilega? Á sýningunni er bent á hvernig Íslendingar hafa notað ljósmyndir, þjóðbúninga og tísku til að búa til mynd af sér. Ljósmyndirnar á sýningunni eru vísbending um hvernig Íslendingar litu út og sýna hvernig þá langaði til að vera.
Æsa Sigurjónsdóttir listfræðingur hefur rannsakað sögu ljósmyndunar og menningarlegt og félagslegt hlutverk ljósmynda á Íslandi í fortíð og nútíð. Greinar eftir Æsu hafa birst í tímaritum, sýningarskrám og bókum hérlendis og erlendis. Má þar nefna bækur hennar um Sigríði Zoëga ljósmyndara (2000) , Ísland í sjónmáli um franska ljósmyndara á Íslandi 1845-1900 (2000) og bókin Til gagns og til fegurðar sem sýnir niðurstöður rannsóknar hennar á útliti og klæðaburði Íslendinga í ljósmyndum frá 1860 til 1960 .
Hvoli við Karlsrauðatorg | 620 Dalvík | Sími: 460 4928 | netfang: hvoll@dalvikurbyggd.is