,,Sólin er risin, sumar í bænum''

,,Sólin er risin, sumar í bænum''

Já sólin er risin, sumar í bænum, sveitirnar klæðast nú feldinum grænum. Nú fer senn að líða að því að vetraropnun á byggðasafninu lýkur og sumaropnun tekur við. Opið verður á laugardögum út maí, en eftir 1. júní verður opið alla daga frá kl 11.00-18.00!

Í vetur hefur verið nóg að gera í að breyta og bæta við sýningar safnsins og má nefna nokkra nýjunga sem hafa orðið til. Einnig hefur komið upp ný fésbókarsíða fyrir safnið sem þar sem reglulega koma inn  fróðlegar og fræðandi upplýsingar.

Upp hefur risið svokölluð “Barnabyggð” á rishæð safnsins, þar sem börn geta fengið að njóta sín í umhverfi þar sem má snerta og leika sér. Með þessari viðbót skapast meiri fjölbreytni fyrir börn, ásamt því að vekja umhugsun og áhuga þeirra á safninu og sögu þess. 
barnabyggð  barnabyggð1

Einnig má sjá nýja viðbót í deildinni hans Jóhanns Svarfdælings. Inni í rýminu má sjá eftirmynd af Jóhanni á vegg ásamt hæðarstiku sem sýnir raunhæð hans sem gestir geta mælt sig við og skráð hjá sér á sérhönnuðu blaði. 

uppsetnign jóhann vegg


Á náttúrugripa-deild safnsins bættust við nokkrir nýjir gripir.  Byggðasafnið fékk þann heiður að fá að hýsa nokkra gripi sem tilheyra sýningunni „Friðland Fuglanna“ sem var stórbrotin sýning um fugla, vistkerfi votlendis og náttúruvernd. Hún höfðaði til barna jafnt sem fullorðinna og var ætluð að vekja umhugsun og áhuga á náttúrunni og náttúruvernd. Höfundur og verkefnastjóri sýningarinnar var Hjörleifur Hjartarson þáverandi forstöðumaður Náttúrusetursins á Húsabakka, þar sem sýningin var til húsa. Hönnuður sýningarinnar var Guðbjörg Gissurardóttir. Jón Árnason hannaði ljósmyndina af íbúum Friðlands Svardæla. Því miður fór svo að sýningunni var síðar lokuð vegna breyttra aðstæðna á Húsabakka og liggur hún nú í dvala. Við vonum þó að sýningin muni fá nýtt heimili og verði sett upp að nýju, en þangað til er hægt að sjá brot úr sýningunni á Byggðasafninu, sem tónar einkar vel við náttúrugripa-sýningu safnsins. 

náttúrugripasafn

 

Á sumardaginn fyrsta þann 25. apríl síðastliðinn var hinn árlegi Eyfirski safnadagur, þar sem söfn og sýningar við Eyjafjörð opnuðu dyr sínar fyrir gestum og gangandi. Markmið dagsins er að vekja athygli á fjölda fróðlegra og forvitnilegra safna sem eru við Eyjafjörð. Á hvert er ákveðið þema sem öll söfnin nota á einhvern hátt og var þemað í ár "ferðalög".
Hvoll tók að sjálfsögðu þátt í þessum stórskemmtilega degi og var opið hús á fallegum sumardegi og boðið uppá uppáhellt sólarkaffi.
Á safninu mátti m.a. fræðast um þau áhugaverðu ferðalög Jóhanns Svarfdælings, sem lengi vel ferðaðist með farand-sirkusum um heiminn. Hægt verður að skoða þessi ferðalög áfram í sumar. Einnig mátti sjá litla útstillingu á 2. hæð, af þróun ferðalaga Íslendinga í gegnum aldirnar. Alls heimsóttu um 50 gestir á safnið þennan sólríka sumardag!

safnadagur sumarkaffi    kistill ferðatöksur

 

Eins og fyrr segir þá fer senn að líða að sumaropnun og það þýðir að sumarstarfsmenn safnsins fara að hefja sín störf. Á safninu munu þær Mjöll Sigurdís Magnúsdóttir og Sigríður Björk Hafstað, standa vaktina í allt sumar og taka vel á móti safngestum. Við bjóðum þær hjartanlega velkomnar í safnahópinn!

 

Við óskum ykkur gleðilegs sumars og hlökkum til komandi samverustunda með ykkur á byggðasafninu Hvoli.