Föstudaginn 11. maí var umhverfisþema hjá okkur í 4. bekk. Við unnum með umbúðir á margvíslegan hátt og hafði undirbúningur átt sér stað heima, þar sem við skráðum allar umbúðir sem til féllu á heimilum okkar í þrjá daga. Við byrjuðum á því að ræða saman um hvernig hefði gengið að skrá niður umbúðirnar heima, hvers konar umbúðir hefði verið mest og minnst um og fleira. í kjölfarið reiknuðum við út meðaltal umbúða, gerðum súlurit í sameiningu og svöruðum nokkrum spurningum með því að lesa út úr súluritinu. Við fundum það til dæmis út að mest var um plastumbúðir heima hjá okkur og að til samans skráðum við rétt tæpar 600 umbúðir á þremur dögum. Úff, það er gríðarlegt magn af umbúðum! Því næst skoðuðum við umbúðir sem hafði verið safnað á þremur heimilum í fimm daga, vigtuðum þær og mældum rúmmálið með því að troða þeim í kassa og finna rúmmál þeirra. Síðan veltum við fyrir okkur hvernig má endurnýta hinar og þessar umbúðir og gerðum hugarkort sem sýnir hugmyndir okkar. Þemadeginum lauk svo með því að allir fengu frjálsar hendur til að endurnýta umbúðirnar sem safnað hafði verið fyrir okkur og urðu þá til alls kyns skemmtilegir hlutir, til dæmis hljóðfæri, kertastjakar, öskjur, sjónaukar og geimflaugar. Hér eru nokkrar myndir frá þessum fróðlega og skemmtilega degi.