Menntun og nám barna er mikilvægur þáttur í öllum samfélögum og í hverju barni býr fjársjóður sem þarf að rækta á markvissan og fjölbreyttan hátt. Þetta er mikilvægt þar sem búa þarf nemendur undir framtíð sem er óráðin. Í menntastefnu Dalvíkurbyggðar er lögð áhersla á samstarfsmenningu sem nær til allra hagsmunaaðila í skólasamfélaginu með uppbyggingu lærdómssamfélags í skólunum.
Fræðsluráð Dalvíkurbyggðar lagði til í ágúst 2019 að endurskoða skólastefnu Dalvíkurbyggðar frá 2014. Í kjölfarið var stofnaður vinnuhópur sem sá um að leiða vinnuna ásamt skólaskrifstofu Dalvíkurbyggðar og skólaþróunarsviði Háskólans á Akureyri.
Menntastefnan er lýsing á þeim áherslum og vinnubrögðum sem samstaða hefur náðst um að viðhafa í starfi leik-, grunn- og tónlistarskóla, en þar er áherslan á skapandi og gagnrýna hugsun í forgrunni. Með menntastefnunni er lagður grunnur að menntun barna á öllum skólastigum, sem á að tryggja að þau verði fær um að stunda frekara nám og þátttöku í samfélaginu þannig að þau geti í framtíðinni átt farsælt lífshlaup.
Stjórnendur, kennarar og annað starfsfólk skólanna eru í lykilhlutverki við innleiðingu og framkvæmd stefnunnar og er stuðningur og eftirfylgni sveitarfélagsins forsenda þess að vel takist til. Menntastefnan var mótuð í góðu og miklu samráði við fjölmarga aðila, foreldra, starfsfólk, kjörna fulltrúa og þar að auki fengu allir íbúar tækifæri til að koma ábendingum sínum og tillögum að á seinni stigum vinnunnar.
Menntastefna Dalvíkurbyggðar 2021-2026
Fylgiskjöl með menntastefnu:
- Markmiðstafla stefnumörkun, innra mat og starfsþróun
- Markmiðstafla skipulag og stjórnun
- Markmiðstafla starfsfólk
- Markmiðstafla leik- og námsumhverfi
- Markmiðstafla foreldrar og grenndarsamfélag
- Markmiðstafla nemendur