Sérkennslu er ýmist sinnt innan eða utan bekkjar og er stuðningur við nemendur eða nemendahóp. Ávallt skal vinna einstaklingsáætlun í samvinnu við foreldra ef nám nemenda víkur verulega frá námsáætlun árgangsins og meta árangur reglulega.
Á yngsta stigi er lögð mest áhersla á málörvun, lestur og grunnþætti stærðfræðinnar. Á miðstigi og unglingastigi er sérkennslan aðallega í stærðfræði og íslensku (lestri og lesskilningi).
Alltaf er tekið tillit til samsetningar nemendahópsins, bekkjarstærðar og annars þegar stuðningur og sérkennsla er ákvörðuð.
Nemendur fara ýmist út úr bekk í lítinn hóp, fá aðstoð inn í bekk eða einstaklingslega.
Kennslan fer oft fram í námskeiðum og/eða stuttum námslotum sem standa yfir í 6 til 8 vikur. Nemendur með tilfinninga-, félags- eða hegðunarvanda eiga kost á stuðningi frá iðju- eða þroskaþjálfa sem tekur mið af þörfum þeirra. Stundum er í boði að létta af bóklegu námi tímabundið og auka vægi verk- og listgreina, einnig er stundum boðið upp á starfsnám 1x í viku fyrir nemendur á unglingastigi í samstarfi við fyrirtæki á svæðinu.
Nemendur með íslensku sem annað tungumál fá auka íslenskukennslu eftir þörfum. Þau geta fengið undanþágu á dönsku og fengið þá meiri íslenskukennslu eða kennslu á eigin móðurmáli í gegnum fjarkennslu.