Kristín Helga Gunnarsdóttir, rithöfundur, heimsótti nemendur 4.-6. og 8.-10. bekkja í gær. Hún sagði nemendum frá starfi sínu sem rithöfundur og bókum sem hún hefur skrifað og margir þekkja. Hún hefur m.a. skrifað bækurnar Fíasól, Mói hrekkjusvín, Strandanornir og Draugaslóð. Einnig las hún úr nýútkominni bók sinni Grímsævintýri. Kristín Helga sagði frá hvernig rithöfundar vinna allt frá því að hugmynd að sögu fæðist hvernig unnið er með hugmyndina og persónusköpun. Hún lagði sérstaka áherslu á bókalestur og að unglingar hætti ekki bókalestri þegar komið er á unglingsárin, en rannsóknir sýna að hluti unglinga, sérstaklega drengir hætti að lesa sér til ánægju á unglingsárunum.