Góðverkadagur Dalvíkurskóla hefur fest sig í sessi sem ein af aðventuhefðum skólans. Þá fara nemendur um bæinn og breiða út kærleika og gleði með ýmsum hætti. Yngsti hópurinn í 1. og 2. bekk fer um og syngur jólalög fyrir vegfarendur, 3. og 4. bekkur dreifir miðum með fallegum orðum, stinga miðum inn um bréfalúgur hjá fólki og gefa þeim sem vilja jólaknús. 5. bekkur fer á leikskólann og aðstoðar þar við ýmis verk og nemendur 6. bekkjar dreifast á nokkra sveitabæi og hjálpa til við verkin.
Nemendur unglingastigs fá að velja sér verkefni og er þar ýmislegt í boði. Haft er samband við fyrirtæki með góðum fyrirvara og þeim boðin hjálp. Kjörbúðin, Húsasmiðjan, Íþróttamiðstöðin, áhaldahús bæjarins, veitingastaðir, bókasafnið, hesthúsið í Hringsholti, Árskógarskóli, Olís o.fl. fá aðstoð þennan dag. Einnig er haft samband við nokkra eldri borgara og öryrkja og fara nemendur í heimsókn þangað og vinna þar ýmis verk, s.s. moka snjó eða dreifa sandi, baka smákökur, skreyta, þrífa eða bara spila og spjalla við íbúana.
Nemendur af unglingastigi fara einnig á Dvalar- og hjúkrunarheimilið Dalbæ og aðstoða þar við jólaskreytingar, laufabrauðsútskurð, býður upp á handsnyrtingu og ýmislegt annað sem skipulagt er af starfsfólki.
Það er virkilega gaman að fylgjast með nemendum þennan dag. Undantekningalaust eru þau dugleg og samviskusöm við þau verk sem þeim eru falin og vinna þau með bros á vör og uppskera þakklæti þeirra sem þiggja.
Þessi góðverkadagur vekur nemendur okkar til umhugsunar um hve mikils virði það er að sýna samkennd, virðingu og góðvild í verki og eykur ábyrgðartilfinningu þeirra.