Dalvíkurskóli tekur þátt í Grænfánaverkefninu sem miðar að því að auka vitund nemenda og samfélagsins um umhverfismál. Grænfánaverkefnið er alþjóðlegt verkefni og að uppfylltum ákveðnum skilyrðum í umhverfismálum fá skólar afhentan Grænfánann. Búið er að gera úttekt á Dalvíkurskóla og fékk skólinn mjög góða umsögn. Skólinn mun því til viðurkenningar flagga Grænfánanum við hátíðlega athöfn 24. maí. Í tengslum við Grænfánaverkefnið er árlega unnið að umhverfisþema. Að þessu sinni var athygli nemenda beint að orku og umferð og hófst þemað á Degi umhverfisins 25. apríl. Nemendur unnu saman í hópum að fjölbreyttum verkefnum. Á yngsta stigi útbjuggu nemendur og spiluðu umferðarspil, kynntu sér m.a. öryggisbúnað hjóla og bifreiða, gerðu vettvangsathuganir og skráðu tölulegar upplýsingar um bílbelta- og stefnuljósanotkun. Nemendur komust m.a. að því að bæjarbúar mega taka sig á í þeim efnum. Á miðstigi fengu nemendur m.a. fróðlegar kynningar á Hitaveitunni, orkunotkun í Björgúlfi og gerðu ýmsar verklegar tilraunir. Á elsta stigi völdu nemendur sér verkefni og ákváðu útfærslu þess. Þeir gerðu m.a. myndbönd um hættur í umferðinni, unnu tölulegar upplýsingar og fræðsluerindi um raforku og gerðu fréttaskot um þemadagana. Föstudaginn 27. apríl var svo afrakstur þemadaganna sýndur í skólanum. Þann dag áttu nemendur einnig að hreinsa bæinn af rusli en sökum snjókomu um morguninn frestaðist það til 2. maí. Ruslið sem nemendur tíndu víðsvegar um bæinn var svo vigtað og reyndist það vera 307 kg.
Þá unnu nemendur í 5. bekk heimaverkefni í tengslum við þemadagana um flokkun á heimilissorpi. Tóku 17 heimili þátt í þeirri vinnu og viktuðu allt sorp í 5 daga. Samtals féllu til rúm 136 kg af sorpi á þessum 17 heimilum þar af rúm 43 kg af lífrænu sorpi og rúm 65 kg af óflokkuðu sorpi. Afgangurinn var svo pappír rúm 17 kg, plast um 8 kg og tæp 3 kg af áli. Við viljum nota tækifærið og þakka þeim fjölmörgu sem aðstoðuðu nemendur Dalvíkurskóla þessa daga og einnig þeim sem komu og skoðuðu sýninguna.