Nú er sá tími að koma að nemendur geti farið að hjóla í skólann. Lögreglan bendir þó sérstaklega á hættu af hálku á götum á morgnana. Foreldrar bera ábyrgð á að börn þeirra fari að landslögumvarðandi hjóla– og hjálmanotkun og þeir taka ákvörðun um hvort og hvenær þeir telja öruggt fyrir þeirra barn að koma á hjóli í skólann.
Samkvæmt landslögum (umferðarreglum) má barn yngra en 7 ára ekki hjóla á akbraut nema undir leiðsögn og eftirliti manns sem náð hefur 15 ára aldri. Nemendur 1. bekkjar mega ekki mæta í hjóli í skólann án fylgdar. Barn yngra en 15 ára skal nota hlífðarhjálm við hjólreiðar. Samkvæmt tillögum frá Umferðarstofu er meginreglan er sú að börn eiga ekki að hjóla í umferð innan um bíla fyrr en þau eru orðin ellefu til tólf ára.
Hjólreiðar lítilla barna eru aðeins æskilegar að sumri til. Börn hafa ekki náð fullkomnu valdi á grófhreyfingum og samhæfingu vantar í hreyfingar. Enn fremur er jafnvægisskyn þeirra ekki fullþroskað og hliðarsýn takmörkuð. Reynsla þeirra af umferð er lítil og þau geta ekki skynjað hraða og fjarlægð ökutækja sem nálgast auk þess sem þau eiga erfitt með að átta sig á því úr hvaða átt hljóð kemur. Yfirsýn þeirra er takmörkuð sökum smæðar sem þýðir að þau sjá ekki yfir bíla. Síðast en ekki síst eru börn til alls líkleg og eiga það til að taka ákvarðanir í skyndi án þess að hugsa um afleiðingarnar. Mikilvægt er að foreldrar brýni fyrir börnum sínum að hjóla aðeins á öruggum svæðum.
Kær kveðja
Skólastjórnendur