Býflugur í 3. bekk

Býflugur í 3. bekk

Í þriðja bekk höfum við verið að vinna verkefni í Byrjendalæsi eftir bók sem heitir Helga og hunangsflugan. Í framhaldi af þeirri vinnu erum við búin að fræðast heilmikið um smádýr af ýmsum toga, fórum út og veiddum köngulær, járnsmiði, flugur, ánamaðka, snigla og fleira sem við fundum á skólalóðinni. Þessi smádýr skoðuðum við í víðsjá, síðan völdu krakkarnir sér eitt smádýr og gerðu skýrslu, teiknuðu dýrið og lýstu ýmsum eiginleikum þess, útliti og lifnaðarháttum eftir bestu getu.

Þetta smádýraverkefni endaði svo með stórskemmtilegri vettvangsferð. Við fórum upp í Svæði til Magnúsar Magnússonar býflugnabónda og hann fræddi okkur um býflugnarækt, sýndi okkur hvernig búin líta út og í lokin fengum við að smakka hunang úr fyrstu uppskerunni í Svæðisbúinu.  
Nokkrir foreldrar skutluðu okkur upp í Svæði og fá þau þakkir fyrir. Heiðurshjónin  og býflugnabændurnir Heiða og Maggi fá kærar þakkir fyrir frábærar móttökur og mikla þolinmæði.
Í lok heimsóknar var ærslast aðeins niðri á túni, síðan gengum við heim í skóla, enda veðrið rosa gott og allir í fínu formi!
 
Hér koma myndir úr heimsókninni.