Á vordögum lögðu nemendur 4. bekkjar land undir fót ásamt umsjónarkennurum sínum, þremur mæðrum og einum rútubílstjóra og heimsóttu þrjú söfn á Eyjafarðarsvæðinu. Fyrst lá leiðin í Laufás í Grýtubakkahreppi, þar sem gamli bærinn var skoðaður hátt og lágt og meðal annars furðað sig á því hvað rúmin voru stutt í gamla daga. Í Laufási borðuðum við einnig dýrindis veitingar sem foreldrar í bekknum höfðu bakað og sprikluðumst um í leikjum. Því næst lá leiðin til Akueyrar þar sem við heimsóttum Minjasafnið og Friðbjarnarhús. Í Minjasafninu fengum við leiðsögn um tvær fastar sýningar, þar sem við fræddumst um landnám Eyjafjarðar (Eyjafjörður frá öndverðu) og kaupstaðarmyndun Akureyrar (Akueyri - bærinn við Pollinn). Í Friðbjarnarhúsi skoðuðum við leikfangasýningu þar sem er að finna fjöldan allan af misgömlum leikföngum. Annar kennarinn og mömmurnar þóttu eldgamlar þegar þær könnuðust við að hafa átt eins dót og er á safninu! Þessi ferð heppnaðist í alla staði ljómandi vel, nemendur voru áhugasamir safnsgestir og spurðu margra spurninga og voru skóla sínum til sóma. Hér má sjá myndir.