Við erum búin að bralla margt skemmtilegt í þriðja bekk nú á vordögum.
Við fórum í sveitaferð fram í Hof, þar sem lömbum og kálfum var klappað, farið á hestbak, rúntað á heyvagni og margt fleira skemmtilegt gert. Hjónin á Hofi eru miklir höfðingjar heim að sækja og þökkum við kærlega fyrir frábærar mótttökur.
Fuglaþemað sem við unnum með öðrum bekk endaði með góðum degi á Húsabakka. Hjöri leiddi krakkana gegnum Fuglasafnið, það var farið niður í Friðland þar sem við fundum tvö hreiður, við fórum í fuglaleiki og horfðum á mynd um farfugla.
Við fórum líka upp í skógarreit í góða veðrinu og fórum þar í lítinn ratleik sem snerist um fugla og grilluðum okkur pylsubita á teini.
Filip kvaddi okkur á vordögum og bauð uppá skúffuköku og ís, við óskum honum velfarnaðar á nýjum slóðum, en hann flutti til Hamborgar í Þýskalandi.
Síðasta kennsludaginn fórum við í gönguferð upp í Gil og fórum í leiki þar, afganginum af deginum eyddum við í Ásvegi 1. Þar áttum við saman mjög góða stund og fengum okkur bakkelsi í boði umsjónarkennara, þeir sem vildu sulluðu í heita pottinum eða léku sér annað. Atli kvaddi hópinn með því að bjóða upp á grillaðar pylsur og ís í hádeginu, hann er fluttur til Akureyrar og óskum við honum líka velfarnaðar í nýja skólanum.
Með þessum myndum af skemmtilegu vordögunum í 3. bekk viljum við þakka krökkunum og foreldrum þeirra fyrir góðan vetur.
Guðný og Þóra, umsjónarkennarar.