Snævar Örn og Gísli Rúnar útskýra Þjóðleik fyrir nemendum eldri bekkja.
Í dag komu þeir Gísli Rúnar og Snævar frá Leikfélagi Dalvíkur og kynntu fyrir nemendum eldri deildar Þjóðleik 2017.
HVAÐ ER ÞJÓÐLEIKUR?
Þjóðleikur er leiklistarhátíð ungs fólks sem er haldin annað hvert ár og fer nú fram í fimmta sinn. Verkefnið er samstarfsverkefni Þjóðleikhússins, menningarráða og fleiri aðila á landsbyggðinni. Hvaða hópur ungmenna sem er getur tekið þátt í þeim landshlutum þar sem verkefnið er í boði. Einu skilyrðin eru að a.m.k. einn fullorðinn einstaklingur (yfir tvítugu) leiði hópinn, að meðlimir hópsins séu nógu margir til að setja upp leiksýningu og séu á aldrinum 13-20 ára.
Hver hópur setur upp eitt af þremur leikverkum sem hafa verið skrifuð sérstaklega fyrir Þjóðleik. Hóparnir frumsýna þegar þeim hentar í sinni heimabyggð en vorið 2017 eru haldnar veglegar lokahátíðir í hverjum landshluta þar sem hóparnir koma saman og sýna verk sín.