Þemadagar Dalvíkurskóla 26.-29. maí
Heilbrigði, velferð og skapandi starf
Árlegir þemadagar Dalvíkurskóla að vori verða helgaðir tveimur af grunnþáttum menntunar sem innleiddir hafa verið í kennslu í skólanum síðastliðin tvö skólaár. Í fyrra var unnið að því að innleiða sköpunarþáttinn og í vetur hefur verið unnið að því að innleiða grunnþáttinn heilbrigði og velferð. Þemadagarnir munu taka mið af þeirri vinnu og hæfni nemenda á þessum sviðum verður í brennidepli. Nemendur fá því að spreyta sig á ýmsum verkefnum þar sem grunnþættirnir eru hafðir að leiðarljósi. Þá eru þemadagarnir einnig notaðir til að efla félagshæfni nemenda þar sem þeir þurfa að vinna með öðrum nemendum að krefjandi verkefnum sem reyna á samvinnu og skapandi hugsun. Settar verða upp ýmiskonar vinnusmiðjur auk þess að farið verður í stuttar vettvangsferðir og fá nemendur ákveðið val um verkefni. Nemendur munu nú á vordögum taka þátt í að móta verkefnin í smiðjunum og því meira eftir því sem þeir eru eldri, en það er liður í aða auka nemendalýðræði og jafnrétti en lýðræði og jafnrétti eru einnig grunnþættir menntunar. Foreldrar eru sérstaklega hvattir til að koma í heimsókn þessa daga og kynna sér og/eða taka þátt í þemavinnunni.
Nemendum verður aldursblandað í eftirtalda hópa: 1.-3. bekkur, 4.-7. bekkur og 8.-10. bekkur.