Lesum saman í sumar!
Nú er að fara í gang sumarlestur Bókasafns Dalvíkurbyggðar og viljum við endilega fá sem flesta með okkur í lið. Á sumrin á sér oft stað ákveðin afturför í lestri, en hið jákvæða er að það þarf ekki mikið til að krakkar viðhaldi færni sinni eða taki framförum. Rannsóknir sýna að til þess að koma í veg fyrir afturför nægir að lesa að jafnaði tvisvar til þrisvar í viku í um það bil 15 mínútur í senn. Best er þó að lesa í 15 mínútur á degi hverjum og velja þá hæfilega krefjandi lesefni á áhugasviði viðkomandi.
Við á safninu ætlum að hafa sumarlesturinn með svipuðu sniði og síðustu ár, þar sem krakkar geta komið til okkar á safnið og skrifað undir samning þar sem þau skuldbinda sig til að lesa ákveðið margar bækur yfir sumarið og fá síðan verðalun fyrir. Einnig verður dregið mánaðarlega úr lesendapotti þar sem heppinn lesandi hlýtur glaðning, ásamt því að haldin verður uppskeruhátið í lok sumars með pomp og pragt!
Gerum þetta saman – gerum þetta skemmtilegt!