Í september hóf Dalvíkurskóli innleiðingu nýrrar aðalnámskrár grunnskóla. Meðal nýunga í námskránni eru sex grunnþættir og hefur sjónum sérstaklega verið beint að einum þeirra það sem af er skólaársins. Sá grunnþáttur nefnist SKÖPUN og felur meðal annars í sér að örva sköpunargleði, áhuga, frumkvæði og ímyndunarafl nemenda og gefa þeim tækifæri til að nota nýjar og óhefðbundnar leiðir við lausn verkefna. Sköpun miðar að því að efla gagnrýna hugsun og skiptir sköpunarferlið ekki minna máli en afraksturinn.
Sköpun er að sjálfsögðu ekki ný á nálinni í Dalvíkurskóla en síðustu mánuði hafa kennarar leitast við að fjölga skapandi verkefnum og ýta enn frekar undir sköpunarkraft nemenda sinna. Viðfangsefnin hafa meðal annars verið frumleg, sniðug, krefjandi og lærdómsrík og verður nú fjallað stuttlega um viðfangsefni í hverjum árgangi.
· 1. bekkur myndskreytti öll erindi vísnabókarinnar Á bak við hús – Vísur Önnu og útbjó í sameiningu eina stóra jólaveggmynd.
· Nemendur 2. bekkjar hafa búið til fjölda leikþátta upp úr hinum og þessum bókum sem þeir hafa lesið í byrjendalæsi.
· Nemendur 3.bekkjar bjuggu til bíla úr mjólkurkössum, teiknuðu bíla og sömdu leikrit um bíla þegar þeir fóru í námsefnið Komdu og skoðaðu bílinn.
· 4. bekkur útbjó klippimyndir af mismunandi herbergjum í húsi og skrifaði inn á þær heiti allra innanstokksmuna á ensku.
· 5. bekkur bjó til hljóðfæri í heimanámi sem síðan voru nýtt í vinnu í skólanum. Nemendur skrifuðu meðal annars verklýsingu um hljóðfæragerðina og sömdu tónverk.
· 6. bekkur útbjó blómabeð og setti niður túlipana og bjó til alls kyns jólastjörnur úr dagblaða- og tímaritapappír.
· Nemendur 7. bekkjar leysa flest öll verkefni í gegnum I-pad, hafa tækifæri til að kynnast og nota öll þau forrit sem þeim standa þar til boða og velja svo að notast við þau forrit sem þeim líkar best að vinna í.
· Nemendur 8. bekkjar teiknuðu draumaherbergin sín í fjarvídd í myndmenntartíma og útjuggu svo þrívíddarlíkön af þeim.
· 9. bekkur vann fjölbreytt verkefni út frá orðum sem nemendur völdu sem fallegustu orð íslenskunnar. Stuttmyndir, ljóð, sögur, frétt og auglýsing voru hluti af afrakstrinum.
· 10. bekkingar túlkuðu blaðafyrirsögnina „Gjafirnar bárust mánuði of seint“ og varð afraksturinn teiknimyndasaga, lag, sjónvarpsfrétt og leikrit.
· Nokkrir bekkir hafa spreytt sig á því að byggja pappírsturna úr A4 blöðum þar sem einu leiðbeiningarnar voru þær að ekki mætti klippa, líma eða rífa blöðin. Lengstu turnarnir hafa orðið rúmlega 2 metra háir. Skemmtilegt verkefni sem hægt væri að spreyta sig á heima!
· Nokkrir bekkir hafa fengið frjálst heimanám þar sem einu skilyrðin voru að nemendur gerðu eitthvað skapandi. Afraksturinn var fjölbreyttur, kökur, tréflugvélar, perlaðar öskjur, stuttmyndir, handavinna, heimagert slím og fleira.
Að lokum vil ég geta þess að í byrjun febrúar hófst innleiðing á grunnþættinum JAFNRÉTTI og er leitað ýmissa leiða til að efla jafnréttisvitund nemenda og stuðla enn frekar að því að jafnrétti sé virt í öllu því sem viðkemur skólastarfinu.
Bestu kveðjur, Erna Þórey Björnsdóttir, verkefnastjóri innleiðingar nýrrar aðalnámskrár