Friðrik Arnarson skólastjóri Dalvíkurskóla, Herborg Harðardóttir, Gísli Bjarnason og Guðríður Sveinsdóttir
Síðastliðinn föstudag, 31. maí, voru skólaslit Dalvíkurskóla. Skólastjóri, Friðrik Arnarson hélt ræðu við þau tímamót og minnti hann þar nemendur meðal annars á að huga vel að heilsunni, bæði þeirri andlegu og líkamlegu, að hætta að bera okkur saman við náungann eða glansmyndir af samfélagsmiðlum og að vera alltaf besta útgáfan af sjálfum okkur. Friðrik hvatti nemendur til að vera duglega að lesa í sumar og stunda sund eða aðra hreyfingu, það hefur jákvæð áhrif á andlega líðan okkar að taka þátt í tómstundastarfi og æfa íþróttir.
Ein stærsta breyting á skólaárinu að sögn skólastjóra var sú að Gísli Bjarnason, sem hefur verið skólastjóri í tugi ára, færði sig um set og hefur nú tekið við sem fræðslustjóri Dalvíkurbyggðar. Voru Gísla þökkuð hans góðu störf fyrir skólann með lófaklappi.
Í ræðu skólastjóra kom fram að vinna við endurbætur á skólalóð er hafin; nýr kastali, ærslabelgur o.fl. verður komið á sinn stað þegar skólastarf hefst að hausti.
Nemendur söfnuðu um 400 þúsund krónum fyrir UNICEF þetta vorið, og hafa safnast rúmlega 6 milljónir króna þessi 11 ár sem við höfum tekið þátt. Það er ljóst að við höfum snert líf margra barna í gegnum árin og hjálpað þeim á þeirra erfiðustu stundum, það ber svo sannarlega að þakka.
Skólastjóri taldi upp það starfsfólk sem er að ljúka störfum við Dalvíkurskóla, en þau eru:
Gísli Bjarnason skólastjóri
Herborg Harðardóttir ritari
Guðríður Sveinsdóttir stærðfræðikennari
Heiðar Davíð Bragason íþróttakennari
Að lokum þakkaði skólastjóri starfsfólkinu fyrir þeirra störf og foreldrum fyrir gott samstarf í vetur.