Í dag var Dalvíkurskóli settur, og var það í 20. sinn sem Gísli Bjarnason skólastjóri setur skólann. Við skólasetninguna talaði Gísli um mikilvægi þess að vera jákvæður og vanda samskiptin við aðra, en í skólanum í vetur verða um 220 nemendur og 50 starfsmenn. Sæplast lagði nemendum fyrsta bekkjar til nýjar skólatöskur og pennaveski og Dalvíkurbyggð önnur námsgögn fyrir alla nemendur og er það til fyrirmyndar og ber að þakka.
Nýir kennarar við skólann eru Jónína Björk Stefánsdóttir í 3.-4. bekkjar teymi og Hólmfríður Lúðvíksdóttir dönskukennari í unglingadeild. Jóhanna Reykjalín kennaranemi verður hjá okkur í æfingakennslu fram að jólafríi.
Fyrirtækið Blágrýti mun sjá um mötuneytismálin í vetur, bjóðum við þau velkomin og þökkum Veisluþjónustunni fyrir gott samstarf síðustu ára. Búið er að flytja Frístundina upp í skóla og einnig tónmenntakennsluna.
Það er von okkar og trú að þetta verði gott skólaár hjá okkur öllum og lítum við með bjartsýni og jákvæðni til vetrarins og hlökkum til samstarfs við nemendur og foreldra.