Vikan 21. til 25. febrúar voru mjög skemmtileg og viðburðarík hjá 7. bekkingum í Dalvíkurskóla. Þá var haldið á Skólabúðir á Húsabakka, þangað komu einnig 7. bekkingar úr Árskógarskóla og 6. og 7. bekkingar frá Grenivíkurskóla. Var þetta frumraun í að nýta Húsabakka sem skólabúðir og bjóða með okkur skólum úr nágrenninu. Það var ekki annað að heyra en að krakkarnir hafi verið ánægð með þessa daga. Allir sem komu og voru með okkur hrósuðu krökkunum fyrir frábæra hegðun og hvað gaman var að sjá hvað allir voru glaðir og jákvæðir. Krökkunum var skipt í 3 hópa og fengu allir hóparnir sömu fræðslu.
Mánudagurinn hófst á hópefli til að hrista hópinn saman og stjórnaði Valdís Guðbrands því. Næstu daga var ýmis konar fræðsla, Skapti Brynjólfs var með fræðslu um jökla, Friðjón Sigurvins og Bjarni Guðmunds komu og voru með ratleik með GPS tækjum ásamt því að vera með fræðslu er tengist Björgunarsveitum. Guðný Þorsteins talaði við krakkana um sjálfstraust, Sissa og Lilja Bára umsjónakennarar 7. bekkjar í Dalvíkurskóla voru með stærðfræðiverkefni bæði úti og inni. Gísli skólastjóri Grunnskóla Dalvíkurbyggðar sá um íþróttir og þá föndruðu nokkrar galvaskar konur úr Listasmiðjunni á Húsabakka með krökkunum. Anna Dóra kenndi jóga og Hjörleifur var með fræðslu um náttúru og fugla. Krakkarnir fengu fyrirlestur frá konum í Aflinu á Akureyri svo og fyrirlestur um forvarnir m.a. einelti og tölvunotkun.
Það var ekki annað að heyra en að krakkarnir hafi verið ánægð með þetta.
Eftir að formlegri dagskrá lauk á daginn komu foreldrar til að sjá um frjálsan tíma og vaktir í skólahúsinu, íþróttahúsi og sundlaug. Einnig skiptust foreldrar á að gista með krökkunum, útbúa morgunmat og kaffi, aðstoðuð við hádegismatinn sem við fengum sendan frá Gústa (sá sem sér um skólamatinn í skólum í Dalvíkurbyggð). Þá bökuðu foreldrar fyrir krakkana þannig að þeir hefðu bakkelsi til að maula á þennan tíma sem dvalist var í skólabúðum á Húsabakka.
Viljum við nota tækifærið og þakka foreldrum kærlega fyrir alla þá aðstoð sem þeir veittu okkur við þessa frumraun skólabúða á Húsabakka, þetta hefði ekki verið hægt án ykkar. Þið eruð einstök. Hér má sjá nokkrar myndir sem teknar voru í fyrstu og vonandi ekki síðustu skólabúðum á Húsabakka.