Lestrarnámskeið – hraði – öryggi - áhugi.
Í maí síðast liðnum fóru nokkrir kennarar úr Dalvíkurskóla á námskeið hjá Kristínu Arnarsdóttur sérkennara í Kópavogsskóla, en hún hefur búið til og þróað lestrarnámskeið sem stuðlar að því m.a. að efla lesfimi og lestrarhraða nemenda, einnig er markmiðið að efla vitund nemenda um eigin lestrarfærni og vekja með þeim metnað til að gera betur. Lestrarnámskeiðið er byggt upp á samvinnu kennara, foreldra og nemenda. Meðan á námskeiðinu stendur er óskað eftir því að foreldrar vinni með barninu í u.þ.b 30 mínútur á dag. Nemandinn fær vikulega í 4 vikur, möppu með þeim verkefnum sem vinna á hverju sinni. Kennari hittir einnig nemendur tvisvar sinnum í viku til að fara yfir verkefnin og ræða um hvernig gengur. Í námskeiðinu er unnið mikið með sýnilega skráningu, þannig að nemandinn sér hvar hann er að bæta sig og hvar ekki. Í vetur ætlum við að vinna með þessi lestrarnámskeið og munum á næstunni bjóða foreldrum að taka þátt í þeim með okkur hjá þeim börnum sem hafa ekki náð lestrarviðmiðum viðkomandi bekkjar.
Gunnhildur og Maggý