Jólakveðja frá umhverfisnefnd Dalvíkurskóla

Í síðustu viku hittust nemendur, foreldrafulltrúar og kennarar í umhverfisnefnd Dalvíkurskóla. Rætt var um ýmislegt er tengist jólum og jólahaldi og hvernig hægt er að spara og endurnýta hluti í stað eyðslu og sóunar sem því miður er einkennandi í aðdraganda jólanna og yfir hátíðarnar. Ýmsar skemmtilegar hugmyndir voru nefndar sem við viljum endilega koma á framfæri og við hvetjum ykkur til að prófa einhverjar þeirra.

Með jólakveðju

Umhverfisnefnd Dalvíkurskóla

 

Til umhugsunar: Ekki henda hlutum bara í ruslið þegar verið er að taka til. Skoðið hvort eitthvað er nýtilegt og setjið það í nytjagáminn. Gefið fatnað til Rauða krossins eða notið hann til að gera nýjar flíkur. Munið að Rauði krossinn tekur við slitnum fatnaði, meira að segja götóttum sokkum. Það er líka tekið á móti alls konar efnisafgöngum, teppum, gluggatjöldum, dúkum o.fl. Notið margnota innkaupapoka, kaupið íslenska framleiðslu og kaupið vörur sem gerðar eru í heimabyggð. Reynið að endurnýta hluti og búa til jólaskraut og jólagjafir.

Dæmi um hugmyndir:

Endurnýting:

Nota jólapappír aftur

Nota pakkabönd og slaufur aftur

Endurnýta jólakortin

Nota efnisafganga o.fl.

Endurnýta vel með farin föt, gefa þau t.d. einhverjum sem maður þekkir

Sauma upp úr gömlum fötum

Nota dagblöð/tímaritapappír sem gjafapappír

Nota dagblöð þegar verið er að steikja laufabrauð

Búa til kerti úr vaxafgöngum

 

Hugmyndir að jólaskrauti:

Teikna/lita myndir

Brjóta blaðsíðurnar í Dagskránni/N4 í jólatré

Nota gömul blöð, bækur í föndur t.d. til að gera stjörnur og önnur form

Saga út og mála alls kyns jólasveina, tré, engla, stjörnur, hreindýr o.fl.

Perla jólaskraut

Fara út í skóg og klippa t.d. brotnar greinar og skreyta þær

Hugmyndir að jólagjöfum:

Gefa vel með farin föt

Gefa vel með farin leikföng

Búa til jólaskraut eða gefa vel með farið jólaskraut sem maður er ekki lengur að nota

Smíða jólagjafir t.d. jólaskraut, leikföng eða nytjahluti

Baka eitthvað og gefa og láta t.d. uppskriftina fylgja með

Búa til sultu og skreyta krukkuna og gefa