Göngudagurinn byrjaði með sérlega fallegum regnboga yfir skólanum og gaf fögur fyrirheit um góðan dag.
Þriðjudaginn 24. september síðastliðinn var Göngudagur Dalvíkurskóla, en hann er hluti af föstum liðum í skólastarfinu. Þann dag ganga nemendur fyrirfram ákveðnar gönguleiðir í nágrenninu með kennurum sínum og öðru starfsfólki skólans, miskrefjandi gönguleiðir eftir aldri nemenda.
Markmið göngudagsins falla vel að grunnþáttum menntunar í heilbrigði og velferð en þar er lögð áhersla á að leiðbeina nemendum að temja sér heilbrigða lífshætti og ábyrga umgengni við líf og umhverfi. Markvisst hreyfiuppeldi leggur grunn að líkamlegri, andlegri og félagslegri færni nemenda.
Markmið Göngudags Dalvíkurskóla eru:
- Að efla heilbrigði, félagsfærni og náttúrulæsi
- Auka þátt útiveru, hreyfingar og hollustu í skólastarfinu
- Auka félagsfærni, kynnast samnemendum og starfsmönnum skólans í öðrum aðstæðum en hefðbundnu skólastarfi
- Læra um sitt nærumhverfi, örnefni, landslag og sögur sem tengjast svæðinu
- Læra um gróður og jurtir
Auk þess sem nemendur kynnast hver æskilegur búnaður er í gönguferðum s.s. hvernig klæðnaður hentar í dagsgöngu, að klæða sig samkvæmt veðri og læra að ganga í hóp með fararstjóra og fylgja reglum sem gilda um slíkar ferðir.
Göngudagurinn er alltaf á fyrstu vikum haustsins og er ákveðinn með stuttum fyrirvara þegar veðurspáin er góð. Í ár tókst sérlega vel til og fengum við dásamlegt haustveður, sannkallaðan sumarauka.