Góðverkadagur í Dalvíkurskóla

Miðvikudaginn 16. desember verður góðverkadagur í Dalvíkurskóla.

Nemendur láta gott af sér leiða og sýna bæjarbúum hlýhug, kærleik og hjálpsemi með því að vinna ýmis góðverk.

 

Þeir munu aðstoða í leikskólunum og  ýmsum fyrirtækjum bæjarins, aðstoða einstaklinga við mokstur og eitt og annað. Víða mun fallegur  jólasöngur og tónlistarflutningur heyrast.  Á Dalbæ lesa nemendur jólasögur, spila á hljóðfæri, syngja og bjóða vistmönnum handsnyrtingu o.fl.  Einnig bera nemendur út blöð og yngstu nemendur skólans ganga um bæinn og bjóða vegfarendum jólaknús og smákökur sem þau hafa bakað í skólanum.

Þessi dagur er orðinn að föstum lið í skólastarfinu okkar.

Það er öllum hollt að sýna hjálpsemi í orði og verki. Á góðverkadegi hvetjum við nemendur okkar til að rétta öðrum hjálparhönd og sýna náungakærleik í okkar litla samfélagi, það eflir þroska og gleði þeirra.