Stærðfræðigleraugu
Fyrsta föstudag í febrúar ár hvert er dagur stærðfræðinnar. Í ár bar daginn uppá 1. febrúar, en þann dag eru skólar á landinu hvattir til að vinna að stærðfræðilegum viðfangsefnum og horfa til þess að stærðfræði má sjá í flestum viðfangsefnum ef við setjum á okkur stærðfræðigleraugun. Þannig eru nemendur vaktir til umhugsunar um stærðfræði og hlutverk hennar í samfélaginu, sjá hana í víðara samhengi og koma auga á möguleika hennar.
Nám í gegnum leik
Kennarar 3. bekkjar þær Harpa Rut og Gréta komu nemendum sínum á óvart þann dag og settu upp ,,kjörbúð‘‘ í stofu bekkjarins með spennandi útprentuðu vöruúrvali. Nemendum var skipt upp í tvo hópa, annar hópurinn fór afsíðis, klæddi sig í búninga, skellti sér í skó og fékk afhenta ákveðna peningaupphæð til að nota í búðinni. Að öðru leyti fengu nemendur frjálsar hendur sem viðskiptavinir. Hinn hópurinn lék ábyrga búðarstarfsmenn, nemendur fundu sér búðarkassa, komu sér þægilega fyrir og biðu spenntir eftir því að fá ,,alvöru‘‘ viðskiptavini með spennandi vörur og alvöru peninga. Visa-, eða kreditkort voru ekki tiltæk enda höfðu einhverjir nemendur á orði að hugsanlega væri upphæðin þar inná bara óendanleg og því aldrei hægt að gefa til baka. J Mikill spenningur myndaðist í báðum hlutverkahópum og allir höfðu mjög gaman af.
Eðlilega eins og gengur og gerist var allur gangur á því hvernig nemendur fóru með peningaupphæðina sem þeir fengu. Sumir voru mjög hagsýnir og versluðu helstu nauðsynjar fyrir heimilið og áttu nóg afgangs, aðrir bruðluðu og stukku strax á ónytsamlegar freistingar af lönguninni einni saman og eyddu allri upphæðinni. Búðarstarfsmennirnir voru afar ábyrgðarfullir við kassana og skiluðu sinni vinnu vel. Hins vegar gerði einn viðskiptavinurinn þeim erfitt fyrir og óskað eftir afslætti þegar hann sá fram á það að eiga ekki fyrir sínum kaupum, þá vandaðist nú málið og útreikningurinn varð skyndilega ómögulegur báðum aðilum.
Það verður sko ekki vandamál í framtíðinni fyrir kjörbúðina okkar að finna ábyrga starfmenn og efnilega viðskiptavini og verða það okkar lokaorð að sinni.
Harpa Rut og Gréta kennarar 3. bekkjar