Byrjendalæsi í Dalvíkurskóla

Umræða um lestraraðferðina Byrjendalæsi hafa verið háværar í fjölmiðlum síðustu daga. Dalvíkurskóli hefur kennt 1. og 2. bekk eftir þeirri aðferð síðustu ár en meginmarkmið Byrjendalæsis er að börn nái góðum árangri í læsi sem allra fyrst á skólagöngu sinni. Þegar börn hefja nám í 1. bekk eru þau misjafnlega á vegi stödd. Sum þekkja stafi, önnur eru farin að lesa og svo er hópur sem þarf að læra alla stafina og hvernig á að vinna með þá. Byrjendalæsi gerir ráð fyrir því að hægt sé að kenna börnum sem hafa ólíka færni í lestri hlið við hlið og því er lögð áhersla á hópvinnu um leið og einstaklingsþörfum er mætt. Aðferðin eykur að okkar mati fjölbreytni í kennsluháttum og ánægju nemenda í lestrarnáminu. Þær mælingar sem gerðar hafa verið á okkar nemendum í tengslum við læsi síðan þá, benda síður en svo til þess að aðferðin hafi gefist illa.

Auk þess styður þróunarverkefnið Byrgjum brunninn sem hófst síðastliðið haust við aukið læsi nemenda, en þar er áhersla lögð á snemmtæka íhlutun og gripið er strax til markvissra aðgerða í 1. og 2. bekk ef barn þarf aukna þjálfun í einhverjum þáttum læsis. 

Við viljum einning benda á að stuðningur foreldra við lestur barna sinna er ómetanlegur, hvort sem lesið er fyrir börnin, með þeim eða hlustað á þau lesa.

Þeir sem vilja kynna sér betur umfjöllun um Byrjendalæsi er bent á lesvefinn:  http://lesvefurinn.hi.is/node/241  eða þið getið komið og rætt við okkur í skólanum.

Kær kveðja

Skólastjórnendur