Bréf frá UNICEF

Bréf frá UNICEF

Á dögunum barst bréf frá framkvæmdastjóra UNICEF á Íslandi, Stefáni Inga Stefánssyni. Í bréfinu þakkar Stefán Dalvíkurskóla innilega fyrir góða þátttöku í UNICEF hreyfingunni 2013 og minnir á að skráning í verkefnið fyrir árið 2014 er hafin.

 
Í bréfinu stendur ennfremur: “Við hjá UNICEF á Íslandi erum afar stolt af samstarfi okkar við skólann, enda teljum við það mikilvægt að börn á Íslandi fái tækifæri til að fræðast um aðstæður jafnaldra sinna í fátækari löndum heimsins. Í samstarfi við íslenska skóla viljum við stuðla að uppvexti alþjóðlega þenkjandi kynslóðar sem er meðvituð um skyldur og réttindi sín og annarra. Markmið UNICEF-hreyfingarinnar er að auka vitund barna og ungmenna um þróunarmál, réttindi barna og lífsskilyrði þeirra víðs vegar um heiminn. Verkefninu er ennfremur ætlað að gefa íslenskm börnum tækifæri á að sýna hug sinn í verki með virku framlagi til mannúðarmála. Þannig viljum við þroska með þeim þá tilfinningu að allir geti lagt sitt að mörkum – hver með sínum hætti. Einn megintilgangur UNICEF-hreyfingarinnar er þannig valdefling skólabarna á Íslandi.
Sífellt fleiri skólar taka þátt í UNICEF-hreyfingunni, en alls voru 29 skólar og frístundaheimili með í verkefninu á síðasta ári. Okkar reynsla er sú að langflestir þeirra skóla sem taka þátt ákveða að endurtaka leikinn og margir gera verkefnið að árvissum viðburði.”
 
Við í Dalvíkurskóla höfum tekið þátt í UNICEF-hreyfingunni síðastliðin fimm ár og höfum við safnað rúmum þremur milljónum fyrir UNICEF á þeim árum. Við ætlum að styðja ótrauð áfram við þetta góða málefni og skrá skólann okkar til leiks sjötta árið í röð.
Það er von okkar að þið takið vel á móti krökkunum ykkar þegar áheitasöfnunin byrjar á vordögum, eins og þið hafið vissulega gert allan tímann.
 
Guðný S. Ólafsdóttir, umsjónaraðili UNICEF-hreyfingarinnar í Dalvíkurskóla.