Alþjóðadagur gegn einelti

Föstudagurinn 8. nóvember er alþjóðadagur gegn einelti. Í skólanum hefur verið rætt við nemendur um mikilvægi þess að vera vakandi fyrir einelti og að vinna gegn því. Nemendur og starfsfólk skrifar undir nokkurs konar skólasáttmála gegn einelti, um er að ræða stóran efnisstranga sem á stendur „Í Dalvíkurskóla leggjum við ekki í einelti“ og verður hann hengdur upp í skólanum. Klukkan 13 verður skólabjöllunni hringt í 7 mínútur samfellt og er fólk um allan heim hvatt til að sýna samstöðu í baráttunni gegn einelti með því að hringja alls konar bjöllum klukkan 13 á staðartíma hvers lands. Ástæðan fyrir því að mínúturnar voru 7 er sú að vikudagarnir eru 7 og við verðum að vera vakandi fyrir einelti alla daga. Foreldrar eru eindregið hvattir til að ræða einelti við börnin sín því umræða um eineltismál á að sjálfsögðu ekki að takmarkast við skólana og það er ekki síður hlutverk foreldra að grípa í taumana og stöðva einelti. Ábyrgð foreldra er mikil þar sem þeir eru aðalfyrirmyndir barna sinna og tengiliðir við skólann og samfélagið. Á vef skólans má finna eineltis- og aðgerðaáætlun skólans, sem gott er að kynna sér. Einnig er fróðlegt að skoða vefinn saft.is þar sem fjallað er um örugga netnotkun sem og varnir gegn rafrænu einelti.