Um mánaðarmótin síðustu fór starfsfólk Kátakots og Krílakots í námsferð til Minneapolis. Leigðir voru 5 bílaleigubílar til að koma fólki milli staða og var það lærdómsríkt enda umferðin meiri en á Dalvíkinni góðu og umferðarreglurnar aðeins flóknari. GPS tækin komu að góðum notum en samt sem áður heyrðist reglulega hljóma í tækjunum "take u - turn next when possible" svona ef bílstjórarnir fóru út af leið. Farþegar í ónefndum bíl tóku að sér að skoða öryggi skólabarna í skólabílum fyrsta daginn....... nýta tímann meðan leitað var að nýrri leið að skólanum sem átti að heimsækja og komu vegna þess verkefnis "aðeins" of seint á staðinn. Þrátt fyrir smá hnökra og að bílarnir fengu á sig nöfn á borð við "ferðafélagið slaufan" og "ferðafélagið bein leið með smá broti" þá komust allir heilir milli staða og heilir heim á endanum.
Flottur hópur
Highlands Elementery
Fyrsti skólinn sem við heimsóttum var Highlands Elementery school sem er fyrir börn frá 5 - 12 ára. Ástæðan fyrir að við heimsóttum Highlands er að þar hefur verið unnið með Uppeldi til ábyrgðar eða Restitution (http://www.realrestitution.com/ ) til margra ára en það er okkar leið í uppbyggingu sjálfsaga. Peter Hodne skólastjóri bauð okkur velkomin og sagði okkur frá skólanum og hvernig þar er unnið með Uppeldi til ábyrgðar. Við fengum svo kort af skólanum og fengum tækifæri til að rölta milli skólastofa og fylgjast með kennslu. Kennslan þar byggðist greinilega á Uppeldi til ábyrgðar, það sáum við þegar við fylgdumst með samskiptum og kennsluháttum. Þar voru notaðar fjölbreyttar aðferðir og námsumhverfið bauð uppá frábær tækifæri til náms og til að koma til móts við þarfir nemenda og kennara. Víða mátti sjá skilaboð um mikilvægi þess að taka tillit til þarfa hvers og eins og húsbúnaður var fjölbreyttur með þarfir allra í huga. Að lokinni yfirferð um skólann funduðum við aftur með Peter og yngri barna kennara skólans sem fræddu okkur nánar um skólastarfið og við fengum tækifæri til að spyrja þau spjörunum úr.
Hér er að finna vefslóð inn á heimasíðu Highlands Elementery og fleiri skóla í þeirri keðju.
http://edinascools.org/site/default.aspx?pageID=1
Garðurinn við Highlands Tónlistarstofan Drífa að afhenda Peter gjöf frá Dalvíkurbyggð
Kinderberry Hill, Edina Praire.
Í Kinderberry Hill var vel tekið á móti okkur. Okkur var skipt í tvo hópa og og þær Jackie og Bailey gengu með okkur um skólann og sögðu okkur frá starfinu. Í skólanum eru börn frá 6 vikna aldri - 5 ára. Leikskólinn er einkarekinn og kostnaður fyrir foreldra mjög mikill en þar er líka allur búnaður t.d. frá Community playthings og íburður mikill. Mikil samskipti eru við foreldra í gegnum app svo foreldrar geta fylgst með barninu yfir daginn en barnafjöldinn var ekki mikill og stór rými fyrir lítinn fjölda barna. Þar er hjúkrunarfræðingur starfandi sem foreldrar geta leitað til ef þeir eru áhyggjufullir yfir einhveru varðandi barnið og þroska þess og gefur einnig lyfjagjafir sé þess þörf. Lögð er áhersla á heilbrigði og velferð, hreyfingu, vísindi, tónlist, táknmál og svo síðast en ekki síst spænskukennslu fyrir tvítyngd börn (í Kinderberry eru mörg enskumælandi og spænskumælandi börn) en það er í anda LAP (Linguisticall appropriate practice), sem við erum að vinna með í þróunarverkefninu okkar, sem styður við virkt tvítyngi.
Hér er að fina vefslóð inn á Kinderberry Hill, Edina Praire
http://www.kinderberryhill.com
Children´s country day school
Síðasti skólinn sem við heimsóttum en ekki sá sísti var Childrens Country Day School en þar eru börn á aldrinum 2-5 ára. Seth Hayden skólastjóri og leikskólakennari tók á móti okkur og sagði okkur aðeins frá skólanum. Okkur var síðan skipt í hópa og farið með okkur í skoðunarferð um skólann og útisvæðið. Country day scool er í raun Grænfánaskóli eins og við svo við sáum margt líkt með okkar starfsemi s.s. endurvinnsla, ræktun og náttúrulegur efniviður. Lóðin var líka mjög svo náttúruleg eins og okkar en það sem Country day school hefur umfram okkur er mikið landsvæði og mikið af dýrum. Uppáhalds dýrin okkar vour Lamadýrin sem tóku mjög svo vel á móti þessum skrítnu ferðalöngum frá Íslandi en þar var líka að finna asna, geitur, kindur, hesta, kanínur, eðlur, skjaldbökur og mörg fleiri dýr. Seth sagði okkur að skólinn væri yfir 30 ára gamall og hann leggur áherslu á að börnin fái tækifæri til að læra í náttúrulegu umhverfi auk þess að læra að ganga vel um náttúruna og að hugsa vel um dýrin. Hann var ánægður að sjá karlmann í starfsmannahópnum okkar en hann sjálfur er eini karlmaðurinn í sínum skóla og sagði þá vera fáa í leikskólum á svæðinu sem er í takt við leikskóla á Íslandi. Seth gaf okkur miklar upplýsingar um skólann sinn og skólakerfið í Minneapolis en þegar við sögðum honum að fæðingarorlof á Íslandi væri 9 mánuður gantaðist hann og bað okkur að vera ekkert að segja sínu fólki frá því en fæðingarorlof er ekki til í Minneapolis og konur fá einungis 6 vikna ólaunað frí og svo er ætlast til að þær komi að því loknu til vinnu. Já það er margt gott á Íslandinu okkar.
Hér er að finna vefslóð inn á heimasíðu Children´s country day school
http://childrenscountyday.org/
Magga með kanínu í Childrens country day school og hér má sjá hluta af útisvæðinu og lamadýrin sem tóku vel á móti starfsfólki
Heimagert trommusett Ein af leikstofunum
Ferðin var í alla staði vel heppnuð en ferðalagið var langt og tímamismunurinn fór misjafnlega vel í starfsfólkið. Íbúar í Minneapolis eru einstaklega kurteisir og hjálpsamir og þar var ekki stressið á afgreiðslufólki eða í umferðinn. Við heimsóttum ólíka skóla sem allir eru mjög faglegir og greinilegt að þar fer fram gott starf. Við kynntumst við frábæru starfsfólki sem við eigum örugglega eftir að vera í sambandi við í framtíðinni og hver veit nema þau komi til okkar einhvern daginn. Starfsfólkið eyddi frítímanum á mismunandi hátt, sumir í Mall of America og sumir skelltu sér á kaffihús meðan aðrir fóru í fótsnyrtingu eða í vettvangsferðir um nágrennið. Síðasta kvöldið borðuðu allir saman á veitingastað sem bauð uppá mat frá Mexíkó og var mikið borðað, hlegið og meira að segja sungið enda frábærir textahöfundar starfandi í Kátakoti og Krílakoti. Í ferðinni lærðum við marg en síðast en ekki síst var þetta frábært tækifæri til að þjappa starfsmannahópnum saman fyrir sameininguna í ágúst.
Við teljum það forréttindi að fá tækifæri til að fara öll saman í námsferðir. Á fjögurra ára fresti höfum við tækifæri til að sækja í menntunarsjóði stéttarfélaganna og svo hefur starfsfólkið selt ýmsan varning s.s. brauð og prjónavörur til að ná upp í kostnað. Við þökkum öllum þeim sem hafa á einhvern hátt lagt okkur lið og svo auðvitað þökkum við jákvæð viðbrögð við því að loka leikskólanum 3 daga í röð í stað þess að dreifa dögunum yfir árið eins og venja er.
Starfsfólk Krílakots og Kátakots