Í dag var tekin fyrsta skóflustungan að viðbyggingu við leikskólann Krílakot en það var Bjarni Th. Bjarnason, sveitarstjóri, sem mundaði skófluna. Framkvæmdir við viðbygginguna munu hefjast í framhaldinu en gert er ráð fyrir að verktími standi fram í ágúst 2016.
Eftir breytinguna verður til einn 5 deilda leikskóli á Dalvík en húsnæði Kátakots verður aflagt sem leikskóli. Auk þess að fjölga deildum á Krílakoti úr 3 upp í 5 bætist við ný forstofa, leikrými og listasmiðja svo eitthvað sé nefnt. Þá munu breytingar og hagræðing innanhúss einnig bæta starfsmannaaðstöðuna umtalsvert. Eftir breytinguna verður starfsmannafjöldi leikskólans um það bil 30.
Þess má geta að 9. september verður leikskólinn Krílakot 35 ára og því vel við hæfi að framkvæmdir við stækkun hans hefjist á þessu ári.