Í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi eru í samfélaginu, með auknum fjölda smita og þeirra sem sitja í sóttkví finnst okkur rétt að ítreka eftirfarandi:
Í Dalvíkurbyggð verður enginn Fiskidagur og engin hátíðarhöld honum tengdum þessa helgi. Því biðlum við til allra, jafnt íbúa sveitarfélagsins sem og ferðamanna að taka ábendingum Landlæknis og sóttvarnarteymisins af fullri alvöru.
Þá viljum við, líkt og þríeykið hefur ítrekað gert undanfarna daga, biðla sérstaklega til unga fólksins okkar að fylgja sóttvarnarreglum. Landlæknir segir almannavarnir hafa nokkrar áhyggjur af því að upplýsingar um sýkingavarnir berist ekki nógu vel til yngri aldurshópa. Það megi til að mynda sjá af aldri þeirra sem sýkst hafa að undanförnu. Landlæknir biðlar því til foreldra að ræða við börn sín um einstaklingsbundnar smitvarnir.
Við þurfum að skerpa á reglunum og gera örlítið betur, eins og Víðir segir. Fá sýnatöku ef við erum veik og passa fjarlægðarmörkin.
Þetta verkefni er algjörlega í okkar höndum.
Við erum jú öll almannavarnir!