Eins og áður hefur komið fram hér á vef Dalvíkurbyggðar hefur Fiskidagurinn mikli frá upphafi heiðrað einstaklinga eða hópa sem hafa markað spor í atvinnusögu byggðarlagsins og/eða landsins alls. Þeir einstaklingar sem hafa verið heiðraðir hafa fengið viðurkenningargrip en gerð hafa verið minnismerki þegar um fleiri er að ræða.
Í ár voru það þeir Helgi Jakobsson og Sigurður Haraldsson skipstjórar sem voru heiðraðir og fengu þeir afhent heiðursskjöl í tilefni dagsins. Báðir voru þeir heiðraðir fyrir störf sín í sjávarútvegi hér á Dalvík.
Helgi Jakobsson hefur komið víða við í sjávarútvegi bæði hér á landi og hjá öðrum þjóðum og fyrir það er hann nú heiðraður. Helgi hóf ungur störf og flutti til Dalvíkur innan við tvítugt. Hann hlaut skipstjórnarréttindi og varð skipstjóri áið 1953. Helgi hóf störf hjá sameinuðu þjóðunum árið 1968 þar sem hann miðlaði reynslu íslendinga á fiskveiðum til annarra þjóða.
Sigurður hefur starfað sem skipstjóri í nær 40 ár og hóf hann störf snemma líkt og Helgi. Sigurður lauk skipstjórnarnámi árið 1963 og árið 167 varð hann skipstjóri hjá Útgerðarfélagi Dalvíkinga hf. sem í dag er hluti af Samherja hf. Sigurður lét af skipstjórn árið 2006 eftir að hafa verið skipstjóri á Björgúlfi EA 312 í nær 30 ár.